Körfubolti

LeBron James með djásn í tönnum

Sindri Sverrisson skrifar
LeBron James notar hlífðargóm til að vernda tennurnar sínar, og nú nýja tanndjásnið, í leikjum.
LeBron James notar hlífðargóm til að vernda tennurnar sínar, og nú nýja tanndjásnið, í leikjum. Getty/Jason Miller

Körfuboltastjarnan LeBron James var langt frá því að fá að handleika meistaraverðlaun á síðustu leiktíð í NBA-deildinni en hann hefur nú fengið sér annars konar skartgrip.

Hinn 37 ára gamli James sýndi frá því á samfélagsmiðlum í gær að hann væri búinn að láta smíða krónu á eina af tönnunum sínum, upphafsstafina í nafni sínu, LJ.

Myndir af tannskartinu birtust meðal annars á Twitter-síðu Los Angeles Lakers og hjá ljósmyndara Lakers, Abigal Keenan.

Þó að síðasta leiktíð hafi gengið afleitlega hjá Lakers þá skilaði James stjörnuframlagi fyrir liðið því hann skoraði að meðaltali 30,3 stig, tók 8,2 fráköst og gaf 6,2 stoðsendingar.

Engu að síður töpuðu Lakers 49 leikjum og unnu aðeins 33, og misstu af sæti í úrslitakeppninni. Ljóst er að James, með Anthony Davis og Russell Westbrook sér til fulltingis, undir stjórn nýja þjálfarans Darvin Ham, ætla sér að gera mun betur í vetur þegar ný leiktíð hefst og James mun freista þess að ná sér í fimmta NBA-meistarahringinn sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×