Innlent

Íslendingur grunaður um hrottafengna nauðgun í Svíþjóð

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Lögreglan í Svíþjóð rannsakar nú brot mannsins sem eru talin mjög gróf.
Lögreglan í Svíþjóð rannsakar nú brot mannsins sem eru talin mjög gróf. vísir/epa

Karlmaður var handtekinn í Svíþjóð á laugardag, grunaður um hrottafengna nauðgun, í kjölfar þess að vegfarandi tilkynnti um alblóðuga konu á svölum íbúðar í Skärholmen í úthverfi Stokkhólms.  

Sænski fréttamiðillin Expressen greindi fyrst frá málinu en heimildir Ríkisútvarpsins herma að maðurinn sem var handtekinn sé Íslendingur. Hann hafi alist upp í Svíþjóð þrátt fyrir að vera með íslenskan ríkisborgararétt og hafi tvisvar áður verið dæmdur í Svíþjóð fyrir nauðgun, árið 2009 og árið 2017.

Í báðum dómum hafi verið svipaðar lýsingar á grófu kynferðisofbeldi. Hann hafi hins vegar fremur lítil tengsl við Ísland.

Nú er hann grunaður um að hafa brennt konu með sígarettum, traðkað á hálsi hennar og nauðgað henni yfir þriggja daga tímabil. Hann var handtekinn eftir ábendingu frá vegfaranda á laugardag. Eins og áður segir elti lögreglan hann uppi eftir flóttatilraun en saksóknari segir brot hans sérlega hrottafengin.

„Hann er handtekinn fyrir mjög alvarlega líkamsárás og nauðgun. Hann er grunaður um þessi brot núna en við sjáum hvert rannsóknin leiðir okkur,“ er haft eftir Kajsa Hultqvist, saksóknara í Svíþjóð sem hefur umsjón með málinu. Hún segir brotaþola ekki enn hafa gefið skýrslu en ljóst sé að hún hafi orðið fyrir alvarlegu ofbeldi en heimildir Expressen herma að maðurinn hafi haldið konunni nauðugri í um þrjá daga. Saksóknari staðfesti einnig að maðurinn hafi áður verið handtekinn fyrir sambærileg brot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×