Íslenski boltinn

Agla María frá út tímabilið?

Valur Páll Eiríksson skrifar
Agla María tekur líklega ekki frekari þátt hjá Blikum í sumar.
Agla María tekur líklega ekki frekari þátt hjá Blikum í sumar. Vísir/Vilhelm

Agla María Albertsdóttir varð fyrir meiðslum í 3-0 sigri liðsins á tékkneska liðinu Slovacko í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á sunnudag. Vel má vera að tímabili hennar sé lokið.

Agla María féll við í leiknum og lenti með rifbeinin á hné leikmanns andstæðingsins. Meiðslin líta ekki vel út og vel má vera að hún sé rifbeinsbrotin. Hún sagði sig í vikunni úr landsliðshópi Íslands fyrir komandi leiki við Hvíta-Rússland og Holland í undankeppni HM sem fara fram í byrjun næsta mánaðar.

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, var til viðtals í aðdraganda úrslitaleiks Breiðabliks við Val í Mjólkurbikar kvenna í dag og staðfesti að útlitið sé ekki gott.

„Ég get ekki staðfest það. En hún varð fyrir meiðslum í lok seinni leiksins úti og við þurfum bara að sjá hvernig það þróast á næstu dögum. En ég get ekki staðfest að það sé út tímabilið,“ segir Ásmundur sem gefur þá til kynna að meiðslin séu ekki minniháttar. Hann var þá spurður hvernig meiðslin litu út:

„Ekkert sérstaklega vel.“.

Agla María sneri aftur til Breiðabliks á lánssamningi frá Häcken í Svíþjóð í lok júní en hún hafði lítið fengið að spila ytra frá því að hún skipti þangað frá Blikum síðasta haust.

Hún verður frá þegar Breiðablik og Valur spila úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna á Laugardalsvelli á laugardaginn kemur klukkan 16:00.

Breiðablik berst þá einnig við Val í deildinni en Blikakonur eru með 28 stig í öðru sæti, fjórum á eftir Val sem er á toppnum. Bæði lið eiga eftir að spila fimm leiki en þau mætast innbyrðis þann 13. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×