Fótbolti

„Mörk Vals komu eftir okkar mistök“

Andri Már Eggertsson skrifar
Ásmundur Arnarsson á hliðarlínunni á Laugardalsvelli
Ásmundur Arnarsson á hliðarlínunni á Laugardalsvelli Vísir/Hulda Margrét

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, var afar svekktur með tap í úrslitum Mjólkurbikarsins gegn Val.

„Það var ótrúlega svekkjandi að tapa þessum leik. Mér fannst við spila frábærlega í fyrri hálfleik þar sem við vorum með yfirhöndina og skoruðum en Valur var betri í síðari hálfleik og því miður færðum við Valskonum mörkin auðveldlega upp í hendurnar á þeim.“

Ásmundi fannst vanta orku í sitt lið í seinni hálfleik og fannst honum töluverður munur á liðinu milli hálfleika.

„Munurinn í seinni hálfleik var kraftur og orka sem vantaði upp á hjá okkur. Það var mikil þreyta hjá okkur og leikmenn voru með krampa.“

Valur skoraði tvö mörk í seinni hálfleik og fannst Ásmundi mörk Vals vera full auðveld.

„Ég var ekki ósáttur með liðið mitt í leiknum en við færðum Val mörkin full auðveldlega upp í hendurnar á þeim.“

Á lokamínútunum reyndi Breiðablik að gera allt til að jafna leikinn. Ásmundur var ekki viss hvað vantaði upp á til að ná inn jöfnunarmarki.

„Það má alltaf ræða hvort við hefðum átt að gera meira. Við settum ferskar lappir inn á og við reyndum að fá meiri kraft með því að gera skiptingar og svo komu ungir leikmenn inn á í lokin en það dugði ekki til.“

„Það er alltaf hægt að segja ef og hefði. Hvað hefði gerst hefðu skiptingarnar komið fyrr. Svona spilaðist þetta og allir sem komu að leiknum gerðu sitt besta en það dugði ekki til,“ sagði Ásmundur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×