Sprenging hefur orðið í vinsældum kaldra baða hér á landi síðustu ár - og nú er kaldur pottur í hverri einustu laug höfuðborgarsvæðisins. En hver er afstaða íbúa til þessara köldu potta sem sprottið hafa upp eins og gorkúlur? Fréttastofa efndi til óformlegrar könnunar til að komast til botns í því. Þegar yfir lauk höfðu rúmlega 6.298 atkvæði borist í kosningu um besta kalda pottinn.
Og hér eru þeir fimm bestu, samkvæmt hinni óformlegu könnun; í Sundlaug Seltjarnarness, Salalaug í Kópavogi, Sundhöll Reykjavíkur, Breiðholtslaug og, í fyrsta sæti með 832 atkvæði, í Ásgarðslaug í Garðabæ. Heildarútlistun á niðurstöðum má sjá neðst í fréttinni.
Þessi góða víma
Björn Rúnar Lúðvíksson, prófessor í ónæmisfræði og yfirlæknir á Landspítala, segir að til að fá sem mest út úr kalda pottinum sé ákjósanlegt að vera ofan í í 5-10 mínútur og hitastig vatnsins skuli vera á bilinu 6-10 stig. Hann segir kælinguna virka mjög vel sem verkjameðferð og svo sé það andlega hliðin.
„Það sem kuldinn gerir er að hann gefur okkur þessa náttúrulegu, góðu vímu. Sem stjórnast af því að líkaminn fer að framleiða endorfín og skemmtilegt efni sem heitir oxítósin í miklu magni,“ segir Björn.
Þá hafi kuldinn klárlega jákvæð áhrif á brennslu líkamans, sé böðunum haldið til streitu í lengri tíma.
„Og getur aukið á hraða efnaskiptanna og jafnvel hjálpað fólki að léttast,“ segir Björn Rúnar.
Þá sé ekkert því til fyrirstöðu að þeir sem eru hraustir, þ.e. ekki með undirliggjandi hjarta- og æðasjúkdóma eða taugasjúkdóma, fari beint í heita pottinn eftir kælingu. Almennt er því þó beint til fólks að fara ekki of geyst í kælinguna heldur stíga varlega til jarðar og hlusta á líkamann.
Halda í þann gamla þrátt fyrir niðurstöðurnar
En víkjum nú aftur að óformlegri könnun fréttastofu. Á fjórða þúsund atkvæði bárust í kosningu um versta kalda pottinn. Og það var kaldi potturinn í Vesturbæjarlaug sem hreppti þann vafasama titil. Potturinn fékk 643 atkvæði, næstum tvöfalt fleiri en næsti pottur á eftir.
Þá má þó einnig geta þess að sami pottur var í 10. sæti af 18 í áðurnefndri könnun um bestu pottana. Og almenn ánægja ríkir um pottinn meðal gesta, að sögn Völu Bjarneyjar Gunnarsdóttur, forstöðukonu Vesturbæjarlaugar.
„Svo er þetta að mér skilst einn fyrsti löglegi kaldi potturinn líka. Þannig að það má með sanni segja að þetta sé brautryðjandi í íslenskri pottamenningu. Þannig að við tökum þetta ekkert inn á okkur hérna.“
En gefa niðurstöðurnar tilefni til breytinga?
„Ég held að við höldum bara í okkar gamla kalda pott. En hvað veit maður? Maður veit aldrei hvað verður,“ segir Vala.
Í innslaginu efst í fréttinni er rætt við Björn Rúnar, fastagesti kalda pottsins í Ásgarðslaug og fleiri. Þá prófar fréttamaður þennan besta pott - og einnig þann „versta“ á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt áðurnefndri óformlegu könnun. Og hér fyrir neðan eru heildarniðurstöður óformlegrar kosningar lesenda Vísis um besta kalda pott höfuðborgarsvæðisins. Tölurnar tákna atkvæðafjölda en alls bárust 6.298 atkvæði.
Ásgarðslaug | 832 |
Breiðholtslaug | 714 |
Sundhöll Reykjavíkur | 706 |
Salalaug | 622 |
Seltjarnarneslaug | 531 |
Árbæjarlaug | 512 |
Dalslaug | 482 |
Laugardalslaug | 354 |
Lágafellslaug | 299 |
Vesturbæjarlaug | 242 |
Sundlaug Kópavogs | 195 |
Grafarvogslaug | 185 |
Álftaneslaug | 182 |
Suðurbæjarlaug | 175 |
Ásvallalaug | 95 |
Varmárlaug | 86 |
Sundhöll Hafnarfjarðar | 54 |
Klébergslaug | 32 |