Daði Rafnsson, yfirmaður knattspyrnuþróunar hjá HK og fagstjóri afrekssviðs Menntaskólans í Kópavogi, bendir á þessa staðreynd á Twitter.
Valur og Breiðablik eru ekki aðeins sigursælustu lið landsins í kvennaboltanum heldur hafa þau alið marga góða leikmenn af sér í gegnum tíðina. Því var áhugavert að sjá aðeins einn leikmann hefja leik fyrir uppeldislið sitt í úrslitaleiknum í gær. pic.twitter.com/ZOwA5DAC7I
— Daði Rafnsson (@dadirafnsson) August 28, 2022
Aðeins Blikinn Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, sem reyndar spilaði fyrr í sumar í keppninni sem lánsmaður með Keflavík, var í byrjunarliði síns uppeldisfélags í bikarúrslitaleiknum.
Í byrjunarliði bikarmeistaranna, Valskvenna, var enginn uppalinn leikmaður félagsins.
Hlutirnir breyttust aðeins hjá Blikum þegar leið á leikinn og fjórir uppaldir Blikar komu inn á sem varamenn. Á varamannabekk Vals biðu hins vegar einu tveir uppöldu leikmennirnir í hóp Vals á laugardaginn; markvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir og landsliðskonan Elín Metta Jensen.
Það má reyndar segja að Breiðablik hafi átt fjóra uppalda leikmenn í byrjunarliðunum tveimur á laugardaginn, því í byrjunarliði Vals voru þær Sólveig Jóhannesdóttir Larsen, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir (sem skipti úr FH í Breiðablik 14 ára) og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir.
Segja má að ÍBV hafi átt þrjá fulltrúa úr sínu yngri flokka starfi í byrjunarliðunum tveimur, þær Elísu Viðarsdóttur og Clöru Sigurðardóttur sem og Rangæinginn Karitas Tómasdóttur sem lék með sameinuðu liði ÍBV og KFR í yngri flokkum. Afturelding átti tvo fulltrúa, þær Mist Edvardsdóttur og Láru Kristínu Pedersen, og FH tvo í þeim Helenu Ósk Hálfdánardóttur og Þórdísi Hrönn.
Breiðablik komst yfir í bikarúrslitaleiknum með marki Birtu Georgsdóttur sem er uppalin í Stjörnunni. Hin bandaríska Cyera Hintzen jafnaði metin og nýja landsliðskonan Ásdís Karen Halldórsdóttir, uppalin í KR, tryggði Val 2-1 sigur.