Íslenski boltinn

Að­eins ein upp­alin í byrjunar­liðunum í úr­slita­leiknum

Sindri Sverrisson skrifar
Valskonur unnu verðskuldaðan sigur á Blikum í úrslitaleik Mjólkurbikarsins og þar með langþráðan bikarmeistaratitil.
Valskonur unnu verðskuldaðan sigur á Blikum í úrslitaleik Mjólkurbikarsins og þar með langþráðan bikarmeistaratitil. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Turnarnir tveir í knattspyrnu kvenna á Íslandi, Valur og Breiðablik, mættust í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á laugardag. Af þeim 22 leikmönnum sem hófu leikinn var aðeins einn að spila úrslitaleik fyrir sitt uppeldisfélag.

Daði Rafnsson, yfirmaður knattspyrnuþróunar hjá HK og fagstjóri afrekssviðs Menntaskólans í Kópavogi, bendir á þessa staðreynd á Twitter.

Aðeins Blikinn Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, sem reyndar spilaði fyrr í sumar í keppninni sem lánsmaður með Keflavík, var í byrjunarliði síns uppeldisfélags í bikarúrslitaleiknum.

Í byrjunarliði bikarmeistaranna, Valskvenna, var enginn uppalinn leikmaður félagsins. 

Hlutirnir breyttust aðeins hjá Blikum þegar leið á leikinn og fjórir uppaldir Blikar komu inn á sem varamenn. Á varamannabekk Vals biðu hins vegar einu tveir uppöldu leikmennirnir í hóp Vals á laugardaginn; markvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir og landsliðskonan Elín Metta Jensen.

Það má reyndar segja að Breiðablik hafi átt fjóra uppalda leikmenn í byrjunarliðunum tveimur á laugardaginn, því í byrjunarliði Vals voru þær Sólveig Jóhannesdóttir Larsen, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir (sem skipti úr FH í Breiðablik 14 ára) og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir.

Segja má að ÍBV hafi átt þrjá fulltrúa úr sínu yngri flokka starfi í byrjunarliðunum tveimur, þær Elísu Viðarsdóttur og Clöru Sigurðardóttur sem og Rangæinginn Karitas Tómasdóttur sem lék með sameinuðu liði ÍBV og KFR í yngri flokkum. Afturelding átti tvo fulltrúa, þær Mist Edvardsdóttur og Láru Kristínu Pedersen, og FH tvo í þeim Helenu Ósk Hálfdánardóttur og Þórdísi Hrönn.

Breiðablik komst yfir í bikarúrslitaleiknum með marki Birtu Georgsdóttur sem er uppalin í Stjörnunni. Hin bandaríska Cyera Hintzen jafnaði metin og nýja landsliðskonan Ásdís Karen Halldórsdóttir, uppalin í KR, tryggði Val 2-1 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×