Enski boltinn

Kviðdómur í máli Giggs komst ekki að niðurstöðu

Sindri Sverrisson skrifar
Ryan Giggs hefur ávallt neitað sök en er sakaður um bæði andlegt og líkamlegt heimilisofbeldi.
Ryan Giggs hefur ávallt neitað sök en er sakaður um bæði andlegt og líkamlegt heimilisofbeldi. Getty/Cameron Smith

Búið er að leysa frá störfum kviðdóminn sem skera átti úr um sekt eða sakleysi Ryan Giggs, sem ákærður var fyrir að hafa beitt fyrrverandi kærustu sína og yngri systur hennar líkamlegu og andlegu ofbeldi.

Réttarhöld yfir Giggs hófust fyrir rúmum mánuði síðan og stóðu yfir í þrjár vikur, og hélt hinn 48 ára gamli Giggs, fyrrverandi knattspyrnumaður hjá Manchester United, fram sakleysi sínu allan tímann.

Kviðdómurinn var skipaður ellefu manneskjum, sjö konum og fjórum körlum, en hefur nú verið leystur frá störfum eftir að hafa ekki tekist að komast að niðurstöðu. Einn kviðdómenda hafði verið leystur frá störfum eftir að hafa veikst.

Það er nú í höndum embættis saksóknara að ákveða hvort að farið verði fram á önnur réttarhöld.

Giggs var sakaður um að hafa viljandi skallað fyrrverandi kærustu sína, hina 38 ára gömlu Kate Greville, og gefið systur hennar olnbogaskot eftir rifrildi á heimili hans í Manchester 1. nóvember 2020. Hann var þá landsliðsþjálfari Wales en steig til hliðar tímabundið eftir að hafa verið handtekinn og hætti svo formlega í því starfi í júní 2022, í aðdraganda réttarhaldanna.

Giggs var einnig sakaður um að hafa beitt Greville andlegu ofbeldi yfir þriggja ára tímabil, á árunum 2017-2020.

Sambandi Giggs og Greville lauk eftir það sem gerðist á heimili hans 1. nóvember 2020 en þau hefðu þá verið í sambandi, með hléum, í sex ár. Greville sagði sambandið hafa breyst í „hreinasta helvíti“ á meðan á samkomubanni stóð vegna kórónuveirufaraldursins 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×