Erlent

Rann­saka dauða fjögurra skjald­baka

Bjarki Sigurðsson skrifar
Talið er að skjaldbökurnar hafi verið drepnar af veiðiþjófum.
Talið er að skjaldbökurnar hafi verið drepnar af veiðiþjófum. Getty

Yfirvöld í Ekvador rannsaka nú dauða fjögurra risaskjaldbaka sem fundust á Galapagos-eyjum fyrr á árinu. Talið er að veiðiþjófar hafi veitt og borðað þær.

Risaskjaldbakan er í útrýmingarhættu og hefur verið í mörg ár. Bann hefur verið við veiðum á þeim á Galapagos-eyjum síðan á sjöunda áratug síðustu aldar. Eyjurnar, sem tilheyra Ekvador, eru eini dvalarstaður dýranna, fyrir utan þær sem búa í dýragörðum.

Talið er að veiðiþjófar séu byrjaðir að veiða skjaldbökurnar í auknu mæli en kjöt þeirra er af mörgum talið afar ljúffengt. Nýlega fundust fjögur skjaldbökuhræ á eyjunum og telja yfirvöld í Ekvador að dýrin hafi verið fórnarlömb veiðiþjófa.

Búið er að senda rannsóknarteymi frá umhverfisglæpateymi lögreglunnar í Ekvador og sér teymið alfarið um rannsókn málsins, með aðstoð dýralækna. Meðal þeirra sem grunaðir eru í málinu eru landverðir á eyjunni.

Undirtegundir risaskjaldbökunnar eru þrettán talsins og eru þær allar í útrýmingarhættu, þó á mismunandi stigum. Ekki hefur verið greint frá því af hvaða tegund skjaldbökurnar sem fundust voru.

Meðalaldur risaskjaldbaka er um það bil hundrað ár en elsta núlifandi skjaldbaka heims er skjaldbakan Jónatan sem er orðinn 190 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×