Íslenski boltinn

Söngvar stuðningsmannanna kostuðu HK hundrað þúsund krónur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr bikarleik Kópavogsliðanna HK og Breiðabliks.
Úr bikarleik Kópavogsliðanna HK og Breiðabliks. vísir/hulda margrét

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ sektaði HK um hundrað þúsund krónur vegna framkomu stuðningsmanna liðsins í garð leikmanns Breiðabliks í leik liðanna í átta liða úrslitum Mjólkurbikars karla í Kórnum 19. ágúst síðastliðinn.

Á fundi aga- og úrskurðarnefndar á þriðjudaginn var skýrsla eftirlitsmanns leiks HK og Breiðabliks tekin fyrir. Að mati nefndarinnar var framkoma stuðningsmanna HK vítaverð. Ákveðið var að sekta félagið en vegna viðbragða og ráðstafana knattspyrnudeildar HK sem lýst var í skýrslunni þótti hundrað þúsund króna sekt hófleg.

Fótbolti.net greindi frá því að stuðningsmenn HK hefðu sungið níðsöngva um Damir Muminovic, leikmann Breiðabliks og fyrrverandi leikmann HK. Þá veittust stuðningsmenn HK að systur Ísaks Snæs Þorvaldssonar, leikmanns Breiðabliks, á meðan leik stóð. Eftir leikinn baðst knattspyrnudeild HK afsökunar á framferði stuðningsmanna liðsins.

Breiðablik vann leikinn 0-1 en Omar Sowe skoraði sigurmarkið í upphafi seinni hálfleiks. Blikar töpuðu svo fyrir Víkingum, 0-3, í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á miðvikudaginn.

HK er í 2. sæti Lengjudeildarinnar og getur tryggt sér sæti í Bestu deildinni ef liðið fær stig gegn Fjölni í kvöld. Fjölnismenn eru í 3. sætinu, sjö stigum á eftir HK-ingum þegar þremur umferðum er ólokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×