Svar við bréfi Helgu
„Hún er eldheit ástarsaga sem gerist á ströndum svona 1940 á Íslandi. Hún fjallar um Helgu og Bjarna sem verða ástfangin en eru bæði gift. Þau byrja í duldu ástarsambandi, sem svo verður náttúrulega mikið og flókið, og fjallar um það hvað lífið getur verið stundum ekki nákvæmlega það sem við viljum að það sé og hvernig við dílum við það,“ segir Hera um myndina Svar við bréfi Helguí Bítinu.
Myndin var frumsýnd á Íslandi um helgina en sérstök hátíðarsýning fór fram undir lok síðustu viku. Myndin er byggð á samnefndri bók eftir Bergsvein Birgisson.
Fékk að opna á sér hjartað
Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstýrði myndinni með miklum glæsibrag. „Hún leyfði okkur að fara í ferðalag þar sem við fengum í rauninni að opna hjartað okkar og gefa það í myndina,“ segir Hera um leikstjórn Ásu. Upplifunina segir hún hafa verið skrítna því hún hafi sjaldan náð jafn mikið að renna frá og opna hjartað og sjá hvort að það gangi fyrir hlutverkið.
„Í lífinu, maður verður bara að vera eins og maður er og við erum öll svo ótrúlega messy að það í rauninni þýðir ekkert að vera feimin yfir því,“ segir hún um upplifunina að opna sig og að vera mennsk.
Leikur á móti Jason Momoa
Hera segir vera mikinn mun á verkefnunum Svar við bréfi Helgu og þáttunum See en hið síðarnefnda sé mörg hundruð manna verkefni á meðan færri einstaklingar komu að kvikmyndinni. Á því tímabili sem See hefur verið tekið upp blómstraði einnig ferill samleikara hennar.
„Jason varð einhvern veginn stórstjarna á meðan við vorum að taka upp þessa seríu,“ segir Hera. „Hann er bara mjög skemmtilegur og mjög stór karakter. Við erum náttúrulega bara góðir vinir og unnum saman í fjögur ár og allt það en þú veist já hann er líka bara mjög skemmtilegur karakter.“
Skrítið að vera í tökum í miðju Covid
„Við tókum upp tvær seríur án þess að stoppa sem er eiginlega klikkað, það er bara sextán mánaða vinna án þess að stoppa.“ Hún segir það hafa verið strembið á covid tímabilinu þar Covid test voru tekin tvisvar á dag og ekki mátti hitta neinn utan vinnu.
Einnig var ekki í boði að fara heim en tökur fóru fram í Kanada sem var lokað allan tímann. Hera eyddi tímanum sínum því í almenningsgörðum, inni hjá sér og í vinnunni.
Í karakter á rauða dreglinum
Hún segir það vera frekar óþægilegt að labba rauða dregilinn „en ef þú ætlar að gera það þarftu svolítið bara að gera það,“ bætir hún við. „Fara í eitthvað hlutverk og fara svolítið alla leið, finnst mér, og það er það sem ég gerði bara. Ég ákvað bara að njóta þess í botn og það var ógeðslega gaman.
Nýlega gekk hún rauða dregilinn við frumsýningu þriðju þáttaraðar þáttanna See. Framundan er mikið af spennandi verkefnum hjá Heru sem má þó ekki deila þeim með aðdáendum sínum strax.
Viðtalið úr Bítinu má heyra í heild sinni hér að neðan: