Enska úrvalsdeildin sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem greint var frá því að félög í deildinni, auk þeirra í neðri deildum, hefðu komist að þeirri niðurstöðu að ekki skyldi leikið um helgina í ljósi andláts Elísabetar II Bretlandsdrottningar.
As a mark of respect to Her Majesty Queen Elizabeth II, this weekend s Premier League match round will be postponed.
— Premier League (@premierleague) September 9, 2022
Krikketleikur milli Englands og Suður-Afríku sem átti að fara fram í kvöld mun ekki fara fram og þá hefur þá hefur öðrum degi PGA meistaramótsins í golfi einnig verið aflýst.
Heil umferð átti að fara fram í ensku úrvalsdeildinni um helgina, auk neðri deildanna, en sú ákvörðun var tekin af forráðamönnum deildanna, ásamt ráðuneyti íþrótta, að fresta þeim leikjum. Það sama á við um kvennaboltann en enska ofurdeildin átti að fara af stað um helgina.
Samkvæmt viðmiðum frá yfirvöldum í Bretlandi er ekki skylda að fresta íþróttaviðburðum þegar þjóðarsorg er lýst yfir. Til að mynda voru leikir leiknir í efstu deild á Englandi skömmu eftir andlát föður Elísabetar, Georgs VI Bretlandskonungs, árið 1952.

