Umfjöllun og viðtöl: Þór/KA 3-3 ÍBV | Jafnt í markaleik á Akureyri

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
5P8A2018
vísir/diego

Þór/KA og ÍBV gerðu jafntefli í sex marka leik í lokaleik 15. umferðar Bestu-deildar kvenna í fótbolta.

ÍBV var fyrir leikinn í sjötta sæti deildarinnar en Þór/KA aftur á móti í mikilli botnbaráttu og munaði aðeins stigi á Þór/KA og Aftureldingu sem situr í 9. sætinu. 

Það voru ekki tíðindamiklar upphafs mínúturnar á leiknum en það átti þó sannarlega eftir að breytast. Gestirnir voru töluvert sterkari, sköpuðu meira og áttu nokkur góð færi.

Það var svo á 15. mínútu sem ein af sóknum gestana bar árangur þegar langur bolti barst úr vörn ÍBV upp á hægri vænginn þar sem Olga Secova var mætt. Hún fékk bæði mikin tíma og pláss og keyrði upp að endalínu þar sem hún setti boltann út í teig á Kristín Erna Sigurlásdóttir sem stýrði boltanum í netið. Sókn sem virkaði ansi auðveld í útfærslu og án mikillar mótspyrnu heimakvenna.

Adam var þó ekki lengi í paradís því heimakonur æddu strax í sókn eftir að hafa tekið miðjuna. Sandra María Jessen átti fyrirgjöf sem fyrirliði ÍBV, Haley Marie Thomas setti í eigið neti og allt orðið jafnt aftur og þannig var staðan þegar liðin gengu til búningsklefa.

Seinni hálfleikur var varla mínútu gamall þegar gestirnir komust í frábæra stöðu inn á teig þar sem Ameera Abdella Hussen átti skot af stuttu færi en Harpa Jóhannsdóttir varði boltann frábærlega. Gestirnir fengu horn í kjölfarið sem Sandra Voitane tók, boltinn barst til Madison Elise Wolfbauer inn á teig sem fékk enga pressu á sig og skaut hnitmiðað upp í hornið. ÍBV því aftur komið í forystu 2-1.

Þá var komið að Söndru Maríu Jessen en á 61. mínútu leiksins átti hún frábært skot fyrir utan teig sem söng í netinu og allt orðið jafnt aftur. 

Markið var þó skammgóður vermir því Krístin Erna Sigurlásdóttir skoraði sitt annað mark og þar með þriðja mark ÍBV aðeins nokkrum mínútum síðar. Boltinn kom þá úr öftustu línu frá Júlíönu Sveinsdóttir alla leið til Kristínar sem var í fremstu línu og skoraði framhjá Hörpu Jóhannsdóttir, aftur leit varnarleikur heimakvenna ekkert sérstaklega út en þetta var annað markið í leiknum þar sem sending úr öftustu línu ÍBV skapaði marki. 

Ennþá átti þó mark eftir að líta dagsins ljós og þau tvö. Á 84. mínútu skoraði varamaðurinn Tiffany Janea McCarty með skalla en markið var dæmt af vegna rangstæðu. Það liðu þó bara örfá andartök þar til Þór/KA var aftur komið með boltann og skoraði aftur, áðurnefnd Tiffany átti þá fyrirgjöf á kollinn á Söndru Maríu Jessen sem skoraði sitt annað mark og þriðja mark heimakvenna. 

Fleiri urðu mörkin ekki, lokatölur 3-3. Það má geta þess að í þeim tveimur leikjum sem liðin hafa mæst í sumar hafa verið skoruðu 15 mörk hvorki meira né minna. 

Afhverju var jafntefli?

Bæði lið gerast sek um mistök í varnarleik sem leiða til marka. Þór/KA fær á sig tvö mjög einföld mörk. ÍBV sofnar á verðinum illa tvisvar í leiknum og svo skorar Sandra María Jessen stórglæsilegt mark. Jafntefli sanngjarnt útfrá þessu. 

Hverjar stóðu upp úr?

Sandra María Jessen var frábær fyrir heimakonur, skorar tvö og leggur upp eitt ásamt því að vera stöðugt vinnandi. Þá áttu Margrét Árnadóttir og María Catharina Ólafsdóttir Gros góðan leik.  

Kristín Erna Sigurlásdóttir var stöðug hætta fyrir vörn Þór/KA og skorar tvö frábær mörk. Olga Sevcova var sömuleiðis mjög góð og Ameera Abdella Hussen var öflug inn á miðjunni hjá gestunum.

Hvað gekk illa?

Varnarleikurinn hjá báðum liðum var oft á tíðum dapur og gerast varnarmenn beggja liða sig sek um klaufaleg mistök í sumum af mörkunum sem voru skoruð í dag. 

Hvað gerist næst?

ÍBV fær Val í heimsókn eftir aðeins tvo daga. Þór/KA fær útileik á móti Keflavík sama dag.

Jonathan Ricardo Glenn: Þrjú mörk ætti að nægja til að vinna 

„Þetta var frábær leikur fyrir áhorfendur en svekkjandi held ég fyrir báða þjálfarana í dag. Við skoruðum frábær mörk hér og stjórnuðum leiknum frá upphafi til enda. Mér finnst við hafa átt skilið að vinna leikinn í dag miða við öll færin sem við sköpuðum,“ sagði Jonathan Ricardo Glenn þjálfari ÍBV eftir 3-3 jafntefli á móti Þór/KA á Akureyri í kvöld. 

ÍBV komst þrisvar sinnum yfir í leiknum. Eftir fyrsta markið sem ÍBV skorar fá þær mark á sig strax eftir að Þór/KA tók miðjuna. 

„Það er auðvitað bara ekki í lagi, leikmennirnir gleyma sér algjörlega þar og þær refsuðu okkur og þegar maður er að spila á móti góðum leikmönnum að þá gerist það. Svo gleymum við okkur aftur í þriðja markinu sem þær skora og aftur er það ekki í lagi, þetta gerist í raun þrisvar sinnum í leiknum og það er í þau þrjú skipti sem þær skora mörk.“

„Við þurfum að læra af þessum leik að við getum ekki bara gleymt okkur í miðjum leik alveg sama hvað er að gerast í leiknum hvort sem við vorum að skora mark eða hvernig sem það er. Við þurfum að vera með fókus á leiknum allan tímann.“

Jonathan var nokkuð ánægður með niðurstöðu leiksins.

„Já ég er nokkuð ánægður með niðurstöðuna, þetta er erfiður völlur að koma á og það er alltaf gott að ná í stig á útivelli. Við skoruðum þrjú frábær mörk og það ætti að nægja til að vinna en gerði það ekki í dag.“

Í tveimur leikjum hjá þessum liðum í sumar hafa verið skoruð 15 mörk. 

„Þetta er klikkað en ég hef ekki hugmynd af hverju leikirnir á milli þessara liða í sumar hafa endað með svona markaveislum.“

Næsta verkefni ÍBV er Valur.

„Það er mjög stutt í næsta leik, einungis tveir dagar þannig vonandi verða allar stelpurnar klárar í þann leik þar sem við höfum nú þegar mjög fámennan hóp. Við erum spennt fyrir leiknum en hann verður erfiður.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira