Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.
Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Hvað hún er breytileg! Ég hef líka gaman af því að fylgjast með því hvernig fólk tjáir sig með klæðaburði.
Í rauninni hef ég meira dálæti af því hvernig fólk setur fötin sín saman heldur en hvort það sé að fylgja tísku eða ekki.
Mér finnst Íslendingar mjög góðir í því að klæða sig eftir persónuleika og tjá sig með klæðaburði. Það er mikil fjölbreytni á Íslandi.
Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Þetta er erfið spurning! Um þessar mundir myndi ég segja Archive Bernhard Willhelm peysa frá AW10 sem ég keypti af Önnu Clausen og Bjarna. Þetta var flík sem var í búðinni þeirra, Belleville sem ég gjörsamlega dýrkaði og þau áttu nokkrar flíkur í kassa heima hjá sér frá því að þau voru í búðinni og ég keypti hana af þeim enda algjört gull að finna svona. Svo myndi ég segja að hin flíkin væri svört vegan leðurskyrta sem ég fékk í Andrá á Laugaveginum og dýrka! Smá Ísak back in the day fýlingur í henni.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Nei, ég er samt alltaf með fyrir fram ákveðið í hverju ég vil vera í þegar ég vakna svo ég þurfi ekki að eyða tíma í að velja áður en ég fer út í daginn.
Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Ég er með mjög wide range stíl. Fer rosalega mikið eftir því hvort ég sé að fara eitthvað fínt eða hvort ég sé að vinna. Ég er oftast í einhverju loose og þægilegu í vinnunni á setti en ef ég er að fara eitthvað fínt þá er ég oftast í einhverju mjög structured, alltaf einhver form.
Finnst lítið spennandi að fara í jakkaföt og skyrtu, geri það heldur aldrei nema að ég þurfi þess.
Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já hann hefur breyst mjög mikið. Ég passaði í allt þegar ég var yngri og fannst skemmtilegt að klæðast kvenmannsfatnaði, en mest vegna þess að mér fannst það oft miklu skemmtilegri form og fallegri flíkur. Var með þráhyggju fyrir Grace Jones og var duglegur að hlaupa um á djamminu með hettu á hausnum með risastóra herðapúða. Núna myndi ég segja að klæðaburðurinn sem meira Androgynous. Skiptir mig samt engu máli hvort flíkin sé kvenleg eða ekki, ef ég fýla hana þá fer ég í hana. Í vinnunni þá er það bara gamla góða hettupeysan og joggers!

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Ég í rauninni sækist ekki í innblástur frá neinu en ég hef alltaf verið mjög hrifinn af miklum litum, old Russian munstrum, Aztec, Nepal og svo framvegis. Ég elska mynstur og því litríkari sem þau eru því betra. Það hefur alltaf fylgt mér.
Ég er rosalega duglegur að kaupa mér föt sem eru kannski ekki mest klæðileg en mér finnst þau bara svo falleg!
Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Nei, í rauninni ekki en það er margt sem ég fýla ekki á sjálfum mér eins og níþröngar buxur til dæmis.
Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Myndi segja að það hafi verið Roksanda Ilincic flíkurnar sem ég keypti í Kronkron á sínum tíma. Það var eitthvað ein rosalegasta flík sem ég hef á ævi minni átt. Svakalegt showpiece. Núna er hún hjá Andreu Helgadóttur í pössun í Catskills, New York.