Körfubolti

Sch­röder til Lakers á ný og West­brook gæti sest á bekkinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dennis Schröder og LeBron James verða liðsfélagar að nýju í sumar.
Dennis Schröder og LeBron James verða liðsfélagar að nýju í sumar. Los Angeles Lakers

Leikstjórnandinn Dennis Schröder hefur samið við Los Angeles Lakers um að leika með liðinu á næstu leiktíð í NBA deildinni í körfubolta. Lakers staðfesti skiptin skömmu eftir að Schröder skoraði 30 stig í tapi Þýskalands gegn Spáni í undanúrslitum EuroBasket, Evrópumóts karla í körfubolta. 

Skömmu eftir frábæra frammistöðu Schröder í gærkvöld þá staðfesti Shams Charania hjá The Athletic að Schröder væri á leið aftur til Lakers. Mögulega hefur Schröder séð að sér en hann yfirgaf Lakers sumarið 2021 í leit að stærri samning en endaði á að semja við Boston Celtics fyrir klink miðað við hvað hann hefði fengið hjá Lakers.

Það var svo síðar í gærkvöld sem Los Angeles Lakers staðfesti skiptin. Schröder er reyndur leikmaður sem hefur komist í úrslitakeppnina sjö sinnum á þeim níu tímabilum sem hann hefur spilað í deildinni. Ásamt því að spila með Lakers og Celtics hefur Þjóðverjinn spilaði með Atlanta Hawks, Oklahoma City Thunder og nú síðast Houston Rockets.

Schröder semur til eins árs og fær hann tæplega 370 milljónir íslenskra króna í vasann. Talið er að koma Schröder gæti þýtt að Russell Westbrook fari á bekkinn en þeir spila sömu stöðu.

 Í sumar var hávær orðrómur þess efnis að Kyrie Irving gæti gengið í raðir Lakers ef liðinu tækist að koma Westbrook af launaskrá. Það gekk ekki og Irving verður áfram hjá Brooklyn Nets en það virðist þó stefna í að Westbrook verði meðal launahæstu varamannadeildarinnar á komandi tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×