Fótbolti

Óttaðist líf sitt vegna rasista og nettrölla

Atli Arason skrifar
Alex Scott með BBC á EM í Englandi.
Alex Scott með BBC á EM í Englandi. Getty Images

Alex Scott, fyrrum leikmaður Arsenal og enska landsliðsins, segist hafa óttast um líf sitt og gat ekki yfirgefið húsið sitt vegna rasista og nettrölla sem hótuðu að binda enda á líf hennar.

Hin 37 ára gamla Scott vakti athygli í teymi sparkspekinga hjá BBC í kringum Evrópumótið í sumar þegar Englendingar fóru alla leið og unnu mótið á heimavelli.

Eftir að mótið kláraðist var ranglega greint frá því í breskum miðlum að hún myndi taka við starfi Sue Barker í vinsæla spurningaþættinum A Question of Sport hjá breska ríkisútvarpinu. Barker hafði áður verið sagt upp störfum eftir að hafa stýrt þættinum í 24 ár

Þetta virtist gera marga Breta reiða og einhverjir þeirra beindu reiði sinni að Scott og húðliti hennar, þar sem hún fékk ítrekaðar líflátshótanir.

„Þetta var komið á það stig að ég var orðin hrædd um lífið mitt,“ sagði Scott við The Times.  „Ég þorði ekki að fara út úr húsi, ekki einu sinni til þess að fara út í búð. Við komust alveg upp á það stig en aldrei hefði mig grunað þetta. Að ef einhver þeldökkur sem gæti mögulega tekið við starfi af svona goðsögn, að slíkt gæti skapað svona mikinn hatur í samfélaginu.“

Scott segist hafa snúið sér að áfengi til að reyna að deyfa vanlíðan en leitaði sér einnig aðstoða lækna og sérfræðinga.

„Ég dreg mikin lærdóm af því sem ég lenti í. Ég væri ekki sama manneskjan án þessara uppákoma,“ bætti Scott við sem telur sig vera á betri stað í dag.

Alex Scott verður hluti af teymi sérfræðinga BBC á útsendingum sjónvarpsstöðvarinnar frá HM karla í Katar í nóvember og desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×