Menning

Tók þátt í óupplýstu vopnuðu ráni og notar þá reynslu í smásögu

Jakob Bjarnar skrifar
Berglind Ósk. Ránið sem hún tók þátt í er eitt af því sem hún sér mest eftir í lífinu. En hún notar nú þá reynslu í magnaða smásögu.
Berglind Ósk. Ránið sem hún tók þátt í er eitt af því sem hún sér mest eftir í lífinu. En hún notar nú þá reynslu í magnaða smásögu. vísir/vilhelm

Nýtt smásagnasafn frá Berglindi Ósk er sannarlega verk sem áhugamenn um bókmenntir ættu að gefa gaum. Um er að ræða kröftugar sögur, raunsæislegar nútímasögur og óvægnar þar sem fjallað er meðal annars um ofbeldi, glæpi, vímuefnaneyslu og hættuleg og vonlaus sambönd. Berglind Ósk segir að hún byggi á eigin reynslu, eins langt og það nær.

Vísir náði tali af Berglindi Ósk um það leyti sem ný bók hennar Breytt ástand var að koma út en þar er að finna 19 smásögur; svipmyndir af veruleika sem blasir við ungu fólki en samt í þessu gamaldags formi sem er hið vanmetna smásagnaform.

Til að komast að því hvað hún er að spá slær blaðamaður Vísis fram hefðbundinni spurningu en lúmskri: Af hverju ertu að skrifa?

„Ég hef alltaf lesið mjög mikið og strax sem barn hugsaði ég að mig langaði að verða rithöfundur, fór síðan að skrifa ljóð sem unglingur en var hrædd við að skrifa sögur. Það var svo ekki fyrr en fyrir nokkrum árum að ég fór að skrifa stuttar sögur og svo augljóslega fór það á fullt þegar ég fór í ritlistina. Núna heillar söguformið mig meira en ljóðin, það er hægt að segja ná betur til fleiri fólks þannig. Það er svo innbyggt í mig að skrifa, það fer að naga mig ef ég sinni því ekki.“

Þetta er nú frekar staðlað svar?

„Já, ef þú spyrð af hverju ég þá er ég óhrædd við að kafa djúpt og segja hluti sem kannski allir þora ekki. Mér finnst ég hafa vissa sýn á umhverfið sem mig langar að koma á framfæri.“

Fölsk og ómerkileg tjáning á samfélagsmiðlum

Það má alveg taka undir þessi orð höfundar, sögurnar eru hispurslausar og óvægnar. Grjótharðar. En er smásagnaformið, og kannski bókaformið almennt, ekki fremur svona … hallærislegt form? Á tímum holskeflu óheftrar tjáningar á samfélagsmiðlum?

„Alls ekki!“ segir Berglind og með áherslu. „Tjáning á samfélagsmiðlum er frekar óúthugsuð eða jafnvel fölsk til að halda vissu andliti. Bókaformið kafar djúpt.“

Berglind Ósk býr ekki við þann munað að geta talist kúltúrbarn og henni þótti hún lengi utanveltu í bókmenntaheiminum.vísir/vilhelm

Já, ég spyr af því að þú ert að fjalla um nútímann. Innri tími er dagurinn í dag, ekki satt?

„Já ég skil, sumar sögurnar gerast reyndar svona upp úr aldamótum, en margar jú líka bara í dag.“

En af hverju ekki bara að gerast áhrifavaldur?

„Ég hef alveg smá ofnæmi gagnvart áhrifavöldum verð ég að viðurkenna, þeir eru háðir auglýsingum og geta aldrei verið alveg sannir. Rithöfundar segja sögur, áhrifavaldar lifa sögu sem þau búa til. Ég hef ekki áhuga á því.“

Sögurnar sumar byggja á eigin reynslu

Sko, þú hefur sent frá þér ljóðabækur, finnst þér það gagnast þér við smásagnaskrifin? Ég þykist í það minnsta greina töluverða lýrík í textanum þó hann sé kannski fyrst og síðast raunsæislegur?

„Já það gagnast vel held ég upp á hrynjandi og lýsingar en það er þannig sem ég hef pælt mikið í ljóðunum. Ég laumaði líka einu ljóði inni í eina smásöguna.“

Þetta er mjög hispurslaus frásögn sem þú býður lesendum uppá?

„Er þetta spurning?“ segir Berglind og hlær. Að blaðamanninum.

Jaaaá, eða, sko... ég er á leiðinni með að spyrja þig afskaplega klisjukenndrar spurningar. Ég hef ekki mikinn áhuga á hinni ævisögulegu bókmenntafræði sem er ráðandi á Íslandi. En vegna söguefnisins, sögusviðsins, frásagnarháttar og persónusköpunar þá er eiginlega óhjákvæmilegt að spyrja þig að hve miklu leyti þú byggir á atburðum úr þínu eigin lífi?

„Nokkrar af sögunum eru byggðar á mínu lífi, þá atburðum sem ég hef sprengt upp og/eða þjappað saman en líka tekið mér skáldaleyfi svo ég myndi samt ekki kalla þær sannsögur. 

Berglind Ósk segist hafa lært mikið í ritlistinni, sem hún stúderaði við Háskóla Íslands.vísir/vilhelm

En fleiri eru frekar kannski innblásnar af mínu lífi og fólki sem ég hef kynnst í gegnum tíðina og þá bara partur af þeim og auðvitað skáldað í kring, persónurnar taka oft líf og fara eitthvað sem maður ætlaði ekkert endilega í byrjun.“

Nákvæmlega. Þetta hittir alveg í mark.

„Geggjað, ég er alveg mjög ánægð með þessar sögur og finnst þær vera hressandi í íslenskum bókmenntum,“ segir Berglind og hlær.

Keyptu kókaín fyrir fenginn úr innbrotinu

En þú ert þarna að fjalla um glæpi, eiturlyfjaneyslu, ofbeldi og klemmd sambönd. Og ert í raun, miðað við hina ævisögulegu bókmenntafræði sem hér ríkir, að bjóða uppá að það verði heimfært á þig? Er það ekkert sem þú óttast?

„Nei í raun ekki. Ég er ekkert feimin að viðurkenna að ég var í neyslu á menntaskólaaldri og hef kynnst þessu öllu að einhverju leyti sjálf. 

Þetta er partur af minni fortíð en ég er allt önnur manneskja í dag svo ég skammast mín ekkert fyrir það. Sem ég gerði lengi vel. Svo finnst mér bara að fólk eigi að læra að lesa skáldskap sem skáldskap og ekkert að missa sig í þessari ævisögulegu bókmenntafræði eins og þú segir. Ef það vill heimfæra þetta allt á mig þá er það bara þeirra mál. Það er helst gagnvart syni mínum sem er 16 ára að ég hef rætt við hann hvað er byggt á sannleika og hvað ekki, hans álit skiptir mig máli, en í raun ekki annarra hvað þetta varðar!

Sögur Berglindar Óskar eru raunsæislegar, trúverðugar og þó ekki sé vert að lesa skáldskap með hinni ævisagnalegu bókmenntafræði, þá verður ekki hjá því litið að hún notar atburði úr eigin lífi í skáldskap sinn.vísir/vilhelm

Það er erfitt að sleppa takinu á þessu. Sögurnar eru trúverðugar. Til dæmis Gamlárskvöld, sögð í fyrstu persónu, er sögumaður í vafasömu sambandi og tekur þátt í innbroti; er þetta þá eitthvað sem þú þekkir þá af eigin raun?

„Já, þegar ég var 17 ára var ég í sambandi með gaur sem var í mikilli neyslu og hann og vinur hans fengu þá frábæru hugmynd að ræna hverfisbúð í vesturbænum. Þeir fóru í það meðan ég beið í Hólavallagarði með föt til skiptanna fyrir þá. Þessi kærasti minn sagðist hafa séð lögreglu og því ekki farið inn með vini sínum, en ég veit að hann guggnaði bara. Vinur hans fór inn með kúbein og lambhúshettu og ógnaði afgreiðslumanneskjunni og fékk 100 þúsund krónur. 

Mér finnst algjörlega klikkað í dag að hafa tekið þátt í ráni. Þetta er eitt af því sem ég hef séð mest eftir að hafa gert í lífinu því þarna var annarri manneskju ógnað sem er auðvitað alveg hræðilegt! 

Þeir komu svo til mín og við gengum á hótel þar sem við fengum fría gistingu gegnum einhver sambönd. Ég held að það hafi aldrei komist upp um þetta því það var enginn bíll, og ég gekk svo með þeim. Svo er auðvitað líka það sorglegasta að það var bara keypt kókaín fyrir þennan pening sem entist örugglega bara í 2 daga.“

Er ekki kúltúrbarn

Jájá, einmitt það. Magnað. En, að öllu þessu sögðu… nú eru ekki miklir peningar í bókabransanum; ertu að vinna eitthvað samhliða skrifum til að eiga fyrir salti í grautinn?

„Já, ég vinn sjálfstætt sem notendamiðaður textasmiður. Ég er mest að vinna fyrir stofnanir, að hjálpa þeim að koma sínum upplýsingum á framfæri á mannamáli svo allir skilji. Ég til dæmis vinn fyrir Neyðarlínuna að skrifa fræðsluefni um ofbeldi sem er á 112.is. Núna er ég að vinna fyrir Hafnarfjarðarbæ sem er að setja nýja vefsíðu í loftið og ég hef unnið allt efnið sem verður á þeirri síðu. 

Berglind segir að hún sé nú farin að vinna að skáldsögu, en hún hefur, auk nýs smásagnasafns, sent frá sér ljóðabækur. Hún segir að það þýði þó ekki að hún sé hætt að skrifa smásögur.vísir/vilhelm

Ég er tölvunarfræðingur að mennt en fyrir nokkrum árum hætti ég að forrita og fór út í textasmíðina þar sem ég er að blanda saman bæði forritunarreynslunni og skrifum.“

Svo lærðir þú ritlist við Háskóla Íslands. Lærðirðu eitthvað þar?

„Jú, ég fór í það nám fyrir þremur árum og fór þá að vinna sjálfstætt með, útskrifaðist svo síðasta vor. Já, ég lærði alveg fullt, sko! Ég hef alltaf verið að lesa og skrifa en aldrei þekkt neinn sem var að skrifa. 

Ég kem líka úr verkamannafjölskyldu þannig ég bý ekki að þeim munaði að vera kúltúrbarn. 

Mér fannst ég læra í ritlistinni að rýna betur í texta annarra, kynnast fleiri formum eins og kvikmyndahandritum og leikritun og vinna úr endurgjöf á textann minn. Svo er líka ómetanlegt að kynnast öðru fólki sem er að gera það sama. Ég var oft búin að vera á ljóðaupplestrum og svona en þekkti aldrei neinn og fannst ég þannig alltaf vera utanveltu.“

Feimin og faldi sig í bókunum

En hvaðan kemur þér þá þessi áhugi á skáldskap og því að vilja skrifa sjálf?

„Þótt foreldra mínir séu ómenntaðir þá lesa þau bæði mikið. Þannig að það voru alltaf bækur í kringum mig. Pabbi las alltaf fyrir mig þegar ég var lítil og tók mig á bókasafnið í Kópavogi, sem var þá bara pínkulítið í hálfgerðri blokk í Hamraborginni. 

Berglind Ósk neitar ekki að hún hefur hálfgerða skömm á hinum svokölluðu áhrifavöldum.vísir/vilhelm

Ég kláraði sko alla barna- og unglingadeildina þar og vann mig upp í fullorðinsbækurnar bara ellefu ára. Ég var feimin sem barn og faldi mig alveg svolítið í bókum sé ég seinna. Ég var bókstaflega alltaf með bók við hönd. Þar gat ég dvalið og liðið vel, tekið þátt í ævintýrum og verið manneskja sem ég þorði ekki að vera í alvöru lífi.“

En aðeins nánar að þessu formi sem er smásagan. Sem gjarnan má segja að sé stórkostlega vanmetið form. Hvernig kom það til þín? Þér hefur ekki dottið í hug að stökkva beint úr ljóðagerðinni í að skrifa skáldsögu?

„Ég kynntist smásöguforminu einmitt fyrst almennilega í ritlistinni, fyrir það hafði ég bara lesið smásögur eftir höfunda eins og Neil Gaiman og Stephen King, sem ég dýrkaði það mikið að ég las allt eftir þá. Og svo kannski nýlega einmitt eftir íslenska höfunda eins og Fríðu Ísberg. En við lesum mikið af smásögum í ritlistinni. Það hentar auðvitað kennsluforminu svo vel og ég varð alveg heilluð af þessu formi. Ég tók einn smásögukúrs þar sem við lásum bókstaflega yfir 200 smásögur, og út frá því fór ég að lesa enn fleiri.“

Snerpa í smásagnaforminu

Berglind Ósk lýsir því að það sé einhver snerpa í smásögum sem sé svo heillandi.

„Og maður getur leyft sér að leika sér meira með formið en í skáldsögunum. Smásagan hentaði líka svo vel þeim sögum sem ég hafði að segja, fannst mér. En ég hef líka verið að reyna við skáldsöguformið, ein smásagan í safninu byrjaði sem kafli í skáldsögu. Ég komst einhvern veginn ekki áfram með skáldsöguna en fékk þessa flottu smásögu út úr því í staðinn. 

Berglind Ósk segir að skáldskapurinn gefi svigrúm til að kafa djúpt og hún telur sig hafa frá ýmsu að segja.vísir/vilhelm

Núna er ég svo að vinna í skáldsögu, það er algjörlega markmiðið að gera það, en ég mun sannarlega skrifa fleiri smásögur líka aftur seinna.“

Af þeim íslensku höfundum sem hafa einkum haft áhrif á Berglindi Ósk eru Steinar Bragi, Kristín Eiríks, Bergþóra Snæbjörns og Fríða Ísberg. En þeir höfundar sem heilluðu Berglindi með raunsæislegum smásögum voru höfundar á borð við Raymond Carver, Lailu Stien og Kevin Canty.

„Þar sem hversdagurinn er einhvern veginn sprengdur upp og allt verður svo spennandi með óljósum undirtexta. En smásögur eru að aukast núna í íslenskri bókmenntaflóru og það er alveg örugglega að einhverju leyti fyrir áhrif frá ritlistinni. Svo fara íslenskir lesendur vonandi að fatta bráðum hvað þetta er skemmtilegt form og ekkert síðra en skáldsögur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×