Þrátt fyrir að Áfram Ítalía, flokkur Berlusconi, hafi tapað fylgi frá síðustu kosningum stóð hann sig betur en kannanir bentu til. Í Monza á Norður-Ítalíu hlaut forsætisráðherrann fyrrverandi meira en fimmtíu prósent atkvæða til öldungadeildarsætis. Hann á knattspyrnulið borgarinnar sem komst nýlega upp í efstu deild.
Berlusconi, sem er 86 ára gamall, var vísað úr öldungadeildinni eftir að hann hlaut dóm fyrir skattsvik sem tengdist fjölmiðlaveldi hans árið 2013. Var honum bannað að gegna opinberu embætti í sex ár. Eftir að honum var leyft að bjóða sig fram aftur náði hann sæti á Evrópuþinginu árið 2019.
Tveir flokkar sem eru enn lengra til hægri en Áfram Ítalía voru sigurvegarar kosninganna á Ítalíu um helgina. Fastlega er gert ráð fyrir að Giorgia Meloni, leiðtogi Bræðralags Ítalíu, verði forsætisráðherra í fyrstu stjórn róttækrar hægrimann frá því að fasistaforinginn Benito Mussolini stýrði landinu í síðari heimsstyrjöldinni.
Berlusconi segist ætla að beita áhrifum sínum til að draga úr öfgum hinna bandalagsflokkanna tveggja, Bræðralags Meloni og Bandalags Matteo Salivnis.
Marta Fascina, 32 ára gömul kærasta Berlusconi, náði einnig kjöri til þings um helgina. Hún vann sæti í neðri deild þingsins fyrir Marsala á Sikiley þrátt fyrir að hún hefði aldrei látið sjá sig þar í kosningabaráttunni. Hún hefur sagst hafa komið til Sikileyjar með föður sínum í frí þegar hún var barn.
Berlusconi gegndi embætti forsætisráðherra í þrígang. Síðast hrökklaðist hann úr embættinu í skugga alvarlegrar fjármálakreppu og ásakana um að hann hefði greitt unglingsstúlku fyrir kynlíf árið 2011.