„Vá hvað þetta var svekkjandi. Við erum svo drullusvekktir,“ sagði Davíð í samtali við Viaplay að leik loknum.
„En leikplanið gekk upp, við löguðum það sem við ætluðum að laga og strákarnir stóðust það að spila á mjög háu leveli undir mikilli pressu. Ég er svo stoltur af þessum gæjum. Þeir eru geggjaðir og það er bara ömurlegt að þurfa að fara heim því ég tel okkur vera á þvílíkri vegferð að ná bestu liðunum.“
„Ég hefði viljað spila við bestu liðin. Við ætluðum að sækja þetta og við ætluðum að græða á þessu og við ætluðum að fara héðan sem sigurvegarar. Þessir strákar verða alltaf sigurvegarar í mínum huga og við megum vera stolt af þeim. Þetta eru efnilegir strákar og við munum græða á þessum leikjum. Þeir munu nýtast okkur þegar þeir eru að spila stóra rullu fyrir Ísland í framtíðinni á lokamóti.“
Íslenska liðið spilaði glimrandi fínan varnarleik í kvöld, en átti í erfiðleikum framan af að skapa sér færi. Þau komu þó í síðari hálfleik og Davíð segist hafa verið pollrólegur í hálfleik.
„Við þurftum bara að halda áfram og minna okkur á að einföldu atriðin eru það sem vinna þessa leiki. Færin munu alltaf detta og við þurftum í rauninni bara eitt færi til að halda leiknum áfram og þau komu. Það sem við ætluðum að gera, að færa boltann frá vinstri kanti yfir á hægri, það gerðist vel. Mér fannst við ná meiri ró á boltann inni á seinasta þriðjungi því það er eitt að halda honum, en við viljum fara inn á síðasta þriðjung að halda honum. Við náðum að spila á milli línanna og í varnarleiknum voru allir vakandi. Þetta var bara eins og íslensk frammistaða á að vera, virkilega vel gert hjá þeim.“
„Ég er gríðarlega stoltur af þeim og svo fúll að fá ekki að vera með þennan hóp áfram. En það eru fleiri efnilegir gæjar á leiðinni og þessir strákar eru að fara að stíga upp og spila flotta rullu fyrir Ísland í framtíðinni. Ég er þvílíkt stoltur af þeim og íslenska þjóðin má vera stolt af þeim. Ég er ógeðslega ánægður með þá,“ sagði Davíð að lokum.