Tveir karlmenn á þrítugsaldri sitja í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Varðhald yfir öðrum þeirra rennur út á morgun og óvíst hvort lögregla fari fram á áframhaldandi varðhald yfir manninum.
Það var á fimmtudaginn í síðustu viku sem að lögreglan boðaði til blaðamannafundar til að greina frá málinu. Deginum áður hafði hún handtekið fjóra karlmenn eftir umfangsmiklar aðgerðir. Húsleitir voru þá gerðar á níu stöðum og voru mennirnir handteknir annars vegar í iðnaðarhúsnæði í Mosfellsbæ og hins vegar Kópavogi.
Hald var lagt á tugi skotvopna og þrívíddar prentara sem notaðir eru til að framleið vopn. Gunur leikur á að mennirnir hafi verið að framleiða vopn og haft í hyggju að undirbúa hryðjuverk hér á landi sem áttu að beinast gegn borgurum og stofnunum ríkisins. Tveir þeirra voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald annar í viku en hinn í tvær vikur. Málið vakti nokkurn óhug og þá er mörgum spurningum enn ósvarað um áform mannanna.
Lögregla hefur lítið viljað tjá sig um gang rannsóknarinnar síðan á blaðamannafundinum en boðað frekari upplýsingagjöf á reglulegum blaðamannafundum. Búist var við því að blaðamannafundur yrði haldinn í dag en svo verður ekki. Unnið er út frá því að fundurinn verði á morgun.
Gæsluvarðhald yfir öðrum mannanna rennur út á morgun. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvort að farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum.
Von er á tilkynningu frá lögreglu vegna málsins.