Íslenski boltinn

Pétur: „Verð áfram á Hlíðarenda nema stjórnin ákveði annað"

Hjörvar Ólafsson skrifar
Guðlaugur Pétur Pétursson var að vonum kampakátur að leik loknum. 
Guðlaugur Pétur Pétursson var að vonum kampakátur að leik loknum.  Visir/Diego

Guðlaugur Pétur Pétursson, þjálfari kvennaliðs Vals, var sáttur við leik liðs síns þegar það gerði 1-1 jafntefli við Selfoss í lokaumferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í dag. Valur hafði fyrir leikinn tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.  

„Þetta var bara flottur leikur hjá okkur, sérstaklega miðað við aðstæður og í ljósi þess álags sem hefur verið á liðinu undanfarið. Það verður aldrei þreytt að vinna titla og ávallt mjög góð stund þegar sigurverðlaunin fara á loft," sagði Pétur eftir að skjöldurinn fór á loft. 

Valur var að leika sinn þriðja leik í vikunni en nóg hefur verið að gera síðustu vikurnar hjá liðinu. Fyrr á tímabilinu tryggði liðið sér bikarmeistaratitilinn og í miðri viku féll liðið á svekkjandi hátt úr leik í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. 

„Heilt yfir er ég bara mjög ánægður með tímabilið. Það er meira en að segja það að verja Íslandsmeistaratitil sem er erfiðasti titillin að nái. Að vinna tvöfalt í titilvörn sinni er svo eitthvað sem ekki mörg lið í sögunni hafa gert. 

Vissulega voru það mikil vonbrigði að falla úr leik í Meistaradeildinni, sérstaklega þar sem það munaði svo litlu að við kæmumst áfram og við áttum skilið að fara lengra í þeirri keppni að mínu mati. Við þurfum bara að gera betur þar á næstu leiktíð," sagði þjálfarinn þegar hann var beðinn um að fara yfir nýlokið tímabil. 

„Ég er með samning hér á Hlíðarenda áfram og það er ekkert fararsnið á mér. Ég hef ekkert annað að gera en að þjálfa eftir að ég hætti í golfi. Það er ekki nema stjórnin ákveði að láta mig fara sem ég á þó ekki von á," sagði Pétur léttur í lundu um framhaldið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×