Íslenski boltinn

Harrington hættur hjá KR eftir stormasamt sumar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Chris Harrington verður ekki áfram hjá KR.
Chris Harrington verður ekki áfram hjá KR. Vísir/Hulda Margrét

Chris Harrington er hættur sem þjálfari kvennaliðs KR í fótbolta. Hann kom inn í þjálfarateymi liðsins á miðju tímabili sem lauk um helgina og KR-liðið fallið úr efstu deild.

Harrington staðfestir tíðindin við Fótbolti.net í dag. Hann tók við þjálfun kvennaliðs KR þann 5. júní ásamt Arnari Páli Garðarssyni. Hann tók við af Jóhannesi Karli Sigursteinssyni sem hætti snemma móts vegna ósættis við umgjörðina í félaginu.

Fyrr í haust var greint frá því að Arnar Páll yrði heldur ekki áfram hjá félaginu þar sem KR ákvað að endurnýja ekki við hann samning sem rennur út nú í haust eftir lok tímabilsins.

Harrington er nú einnig stiginn frá borði en hann var áður í aðstoðarþjálfari í teymi félagsins í þrjá mánuði í fyrra.

KR féll úr Bestu deildinni en lauk tímabilinu þó á sigri gegn Þór/KA, 3-2 á KR-velli, í lokaumferðinni á laugardaginn var.

Mikið hefur gustað um KR í sumar þar sem umgjörð í kringum kvennalið félagsins hefur verið harðlega gagnrýnd, bæði utan frá og innan félagsins. KR kom upp úr Lengjudeildinni síðasta sumar en hefur nú fallið beint aftur niður í næst efstu deild.

Í samtali við Fótbolti.net segir Harrington að fjölmargt sé hægt að segja um það sem gekk á hjá félaginu í sumar.

„Ég las fyrir nokkrum vikum að þjálfari Aftureldingar sagði að hann gæti skrifað bók um tímabilið, ef það er staðan þá er ég fullviss um að við gætum skrifað biblíu um okkar tímabil," sagði hann við Fótbolti.net.


Tengdar fréttir

Kvennalið KR hafi ekki getað æft því karlaliðið var erlendis

Kvennalið KR var til umræðu í Bestu mörkunum á Stöð 2 Sport í gær. Þar kom fram að liðið hafi ekki getað æft á meðan karlalið félagsins var erlendis í keppnisferð. Allir með lyklavöld að KR-heimilinu hafi verið ytra með körlunum.

Lá sárþjáð en fékk engar börur: „Takið mig út af“

Hannah Tillett lá sárþjáð á grasinu á Meistaravöllum, heimavelli KR-inga, í tæpar fjórar mínútur í gær áður en liðsfélagar hennar héldu á henni af vellinum. Vonir standa til þess að hún hafi ekki slitið krossband í hné.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×