Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.
Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Mér finnst mjög skemmtilegt hvað hún er fljót að breytast og þróast. Ég elska að sjá fólk sem þorir að prófa eitthvað öðruvísi og nýtt og gera það að sínu. Því að tíska er list í lifandi formi í okkar daglega lífi.
Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Allra uppáhalds flíkin mín er blátt fur poncho sem ég keypti í fatamarkaðinum á Hlemmi fyrir mörgum árum. Ég held einnig mikið upp á hálsmenin mín, sem eru hönnuð af listamanninum Örnu Gná, sem hafa með tímanum orðið stór partur af mér, og líður mér oft hálf naktri ef ég er ekki með þau utan um hálsinn.
Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Já ég myndi segja það. Fatnaður er mitt helsta tjáningarform og nota ég það mikið til að spegla hvernig mér líður hverju sinni og gefur fataval mitt mér ákveðinn kraft og öryggi.
Finnst það sérstaklega eiga við í samfélaginu sem við lifum í dag, þar sem mannleg samskipti eru mjög hröð og mikil, að fötin sem við klæðumst verða okkar silent language.
Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Hann er mjög mismunandi, mér finnst gaman að breyta um stíl eftir ákveðnum tímabilum í lífi mínu. Ég myndi lýsa honum einmitt núna sem dramatic glamorous grunge. Því fleiri layers því betra.
Ég er einmitt mjög ánægð að veturinn sé að koma og að ég geti byrjað að stafla eins mikið af fötum á mig og ég get borið.
Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já hann er sífellt að breytast. Sérstaklega þegar ég var yngri og var að reyna finna sjálfa mig. Hann breytist minna og minna með árunum sem líða, en á sama tíma er ég alltaf til í að prófa eitthvað nýtt og mun vonandi alltaf halda því áfram.
Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Frá cool og sjálfsöruggum konum sem eru óhræddar við að vera séðar og taka pláss.
Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Ég myndi alltaf mæla með því, ef fólk hefur tök á að versla ekki við brands sem ýta undir fast fashion, barnaþrælkun og stela hönnun frá ungum og upprennandi fatahönnuðum. Ég veit að við eigum það öll til en gott að vera vakandi fyrir því hvaðan fötin okkar koma og hvað verður um þau.
Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Aldrei hætta að prófa þig áfram og ekki vera hrædd/ur/hrætt við að líta asnalega út. Ef þér finnst eitthvað áhugavert, treystu þínu innsæi og just go with it.
Þú getur púllað hvað sem er ef þú klæðist því með sjálfsöryggi.