Viðskipti innlent

Skagfirðingar segja að þetta verði frystihús framtíðarinnar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Tölvugerð mynd af fyrirhuguðu fiskvinnsluhúsi FISK Seafood á Sauðárkróki. Fyrirtækið er dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga.
Tölvugerð mynd af fyrirhuguðu fiskvinnsluhúsi FISK Seafood á Sauðárkróki. Fyrirtækið er dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga. FISK Seafood/Stoð verkfræðistofa

Mikil atvinnuuppbygging er framundan á Sauðárkróki. Þar ber hæst byggingu nýrrar hátæknifiskvinnslu, sem heimamenn segja að verði frystihús framtíðarinnar.

Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um atvinnulíf á Sauðárkróki en við sögðum nýlega frá grósku í húsbyggingum í Skagafirði. Þá kom fram að yfir fimmtíu íbúðir væru í smíðum um þessar mundir víðsvegar um sveitarfélagið.

Séð yfir Sauðárkrókshöfn.Egill Aðalsteinsson

En það eru ekki bara íbúðabyggingar. Atvinnulífið er einnig í framkvæmdahug. Á hafnarsvæðinu á Sauðárkróki eru uppi stór áform.

„Við erum að gera ráð fyrir stækkun á höfninni. Þar er atvinnulífið heldur betur að taka við sér,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.Sigurjón Ólason

„Þar er til dæmis FISK Seafood að fara af stað með 8.000 fermetra byggingu, nýja fiskvinnslu, hátæknifiskvinnslu.“

Grafískar myndir frá verkfræðistofunni Stoð sýna hvernig áformað er að byggingin muni líta út. Framkvæmdastjóri FISK Seafood, Friðbjörn Ásbjörnsson, segir að þeir kalli það frystihús framtíðarinnar. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á næsta ári, eða um leið og búið verður að rýma og rífa á annan tug eldri og smærri húsa sem núna eru á lóðinni.

Á annan tug eldri bygginga mun víkja af lóðinni til að rýma fyrir nýja fiskvinnsluhúsinu.FISK Seafood/Stoð verkfræðistofa

Í samtali við héraðsfréttamiðilinn Feyki fyrr á árinu sagði Friðbjörn að nýja frystihúsið myndi bæði auka gæði vinnslunnar til muna og lækka tilkostnað og skipta þannig miklu máli fyrir samkeppnishæfni FISK Seafood á alþjóðlegum mörkuðum. Vinnuumhverfi starfsfólks myndi jafnframt gjörbreytast, flæði yrði hraðara, minni kuldi við færiböndin, störfin yrðu léttari og þungur burður minni.

Áformað er að húsið verði um átta þúsund fermetrar að stærð. Til samanburðar má geta þess að löglegur knattspyrnuvöllur í fullri stærð er um sjö þúsund fermetrar.FISK Seafood/Stoð verkfræðistofa

Fyrirtæki í iðnaði og þjónustu eru einnig að huga að stækkun sem og fleiri tengd sjávarútvegi, að sögn sveitarstjórans.

„Nýr fiskmarkaður að taka til starfa. Kjarninn að gera ráð fyrir stækkun, sem er svona bílaverkstæði, vélaverkstæði og fleira.

Dögun rækjuvinnsla, steypustöðin. Steinull er eitthvað að íhuga málin. Það er sem betur fer allsstaðar uppbygging í atvinnulífi,“ segir Sigfús Ingi.

Svona mun húsið líta út, séð úr austri. Horft í átt að Gönguskörðum.FISK Seafood/Stoð verkfræðistofa

Af upptalningunni má heyra að Sauðárkrókur býr við fjölbreyttara atvinnulíf en víða gerist í bæjum utan suðvesturhornsins.

„Atvinnulífið er gríðarlega sterkt hérna, miðað við stærð. Það er fjölbreytt atvinnulíf. Við erum sennilega undir eitt prósent atvinnuleysi í dag. Okkur vantar fólk.

Það er húsnæðisskortur, þrátt fyrir þetta allt saman. Hér bara líkar fólki vel. Þetta er gott samfélag. Hér er góð þjónusta, fjölbreytt atvinnulíf. Allir fá vinnu við sitt hæfi. Hér er bara gott að vera,“ segir sveitarstjóri Skagafjarðar.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×