Íslenski boltinn

Telur Íslendinga geta lært margt af Færeyingum - „Þeir eru varfærnir í sinni nálgun“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Guðjón Þórðarson ræddi við Gaupa.
Guðjón Þórðarson ræddi við Gaupa. Skjáskot/Stöð 2

Þjálfaragoðsögnin Guðjón Þórðarson segir íslenskt samfélag geta tekið margt til fyrirmyndar af Færeyingum.

Guðjón bjó og starfaði í Færeyjum árið 2019 þegar hann ákvað að koma sér aftur af stað í knattspyrnuþjálfun eftir nokkurra ára hlé.

Hann ræddi meðal annars tímann sinn í Færeyjum í áhugaverðu viðtali við Guðjón Guðmundsson, Gaupa.

„Dagarnir í Færeyjum voru skemmtilegir. Þetta eru góðir karlar og það var gaman að vinna með þeim. Þetta er sérstakt samfélag en heiðarlegt og ákveðið,“ segir Guðjón.

Gaupi kvaðst hafa skynjað það að Íslendingar litu niður til Færeyinga, meðal annars þegar kemur að knattspyrnu. Hinn þrautreyndi Guðjón Þórðarson segir það ekki eiga við neitt að styðjast og Íslendingar geti raunar lært margt af Færeyingum.

„Það er engin ástæða til þess. Ég held að við getum lært margt af Færeyingum. Þeir passa sig og eru varfærnir í sinni nálgun; sumum finnst það seinvirkt og annað en ég held að við getum bara skoðað þjóðarleikvang Færeyinga á móti þjóðarleikvangi Íslendinga.“

„Við sjáum þessa umgjörð sem þeir eru að búa sér til. Þeir eru rétt rúm 55 þúsund og þeir eiga flottan þjóðarleikvang á meðan við eigum opinn, gamlan frjálsíþróttavöll sem þjóðarleikvang,“ segir Guðjón, staðfastur að venju.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×