Erlent

Segir brýnt að grípa til aðgerða vegna eftirkasta Covid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tedros Adhanom Ghebreyesus segir að grípa þurfi til tafarlausra aðgerða.
Tedros Adhanom Ghebreyesus segir að grípa þurfi til tafarlausra aðgerða. epa/Salvatore Di Nolfi

Tugmilljónir manna þjást enn af eftirköstum Covid-19, sem eru að hafa alvarlegar afleiðingar á líf þeirra og afkomu. Þá hafa þau komið hart niður á heilbrigðiskerfum og efnahag ríkja heims.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, hvetur stjórnvöld til að grípa til tafarlausra og áframhaldandi aðgerða til að takast á við hina grafalvarlegu krísu.

Tedros segir heimsbyggðina aldrei hafa verið í betri stöðu til að ráða niðurlögum heimsfaraldurs kórónuveirunnar en það sé ljóst að margir þeirra 600 milljóna sem hafa smitast glími enn við afleiðingar Covid-19.

Sjúkdómurinn hefur valdið 6,5 milljón dauðsföllum en WHO áætlar að um 10 til 20 prósent þeirra sem smitast þjáist af eftirköstum til skemmri eða lengri tíma, meðal annars þreytu, andþyngslum og hugrænum glöpum. Fleiri konur en karlar upplifa þessi eftirköst.

Tedros segir ástandið setja líf fólks á haus og úrræðum sé ábótavant. Leggja þurfi aukinn þunga í rannsóknir og aðgerðir til að standa vörð um fólkið og heilbrigðiskerfin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×