Innherji

Er­lend korta­velta aldrei verið meiri í septem­ber­mánuði

Þórður Gunnarsson skrifar
Ferðamenn á Íslandi straujuðu kortin sem aldrei fyrr í septembermánuði.
Ferðamenn á Íslandi straujuðu kortin sem aldrei fyrr í septembermánuði. Vísir/Vilhelm

Velta erlendra greiðslukorta hér á landi í septembermánuði hefur aldrei verið hærri en í ár. Þetta kemur fram í uppfærðum tölum frá Seðlabankans um greiðslumiðlun sem birtar voru í dag. Velta erlendra greiðslukorta hér á landi var tæplega 27,7 milljarðar króna í mánuðinum.

Fyrra met í septembermánuði hafði staðið óhaggað frá árinu 2017, en þá straujuðu erlendir ferðamenn kortin fyrir 24,5 milljarða króna. Veltan í septembermánuði nú er því um 13 prósentum meiri en þá.

Erlend kortavelta á Íslandi sló met í bæði júlí og ágúst á þessu ári. Í júlí var velta erlendra greiðslukorta hér á landi 37,4 milljarðar króna, en áður hafði veltan mælst mest í ágústmánuðum 2017 og 2018 í tæpum 34 milljörðum.

Metið var svo aftur slegið í ágúst síðastliðnum þegar erlend kortavelta var 38,7 milljarðar. Velta erlendra korta dróst því saman um tæp 40 prósent milli mánaða, en ágúst er jafnan veltuhæsti mánuður ársins hér á landi með tilliti til erlendra greiðslukorta.

Spá 1,7 milljón ferðamanna

Í nýlegri þjóðhagsspá Íslandsbanka er því spáð að um 1,7 milljón ferðamanna heimsæki Ísland á árinu 2022. Yrði það ámóta fjöldanum sem sótti landið heim 2019 sem var síðasta heila árið fyrir heimsfaraldurinn. Íslandsbanki gerir svo ráð fyrir því að um tvær milljónir manna komi til Íslands á næsta ári.

Ljóst er að ferðamenn eru að eyða meiri peningum hér á landi að meðaltali nú en áður. Á árunum 2017 og 2018 fór fjöldi ferðamanna á Íslandi vel yfir tvær milljónirnar. Árið 2018 er ennþá metár íslenskrar ferðamennsku, en þá eyddu 2,3 milljónir ferðamanna um 257 milljörðum króna hér á landi. 

Ferðamenn hafa nú þegar eytt um 200 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins og því nokkuð góðar líkur á að erlenda kortaveltumetið fyrir árið í heild verði nú slegið.


Tengdar fréttir

Spá mesta hagvexti síðustu fimmtán ára

Hagvöxtur á Íslandi verður 7,3 prósent á árinu 2022 ef marka má spá greiningardeildar Íslandsbanka sem kynnt verður síðar í dag. Svo mikill hagvöxtur hefur ekki verið hér á landi í fimmtán ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×