Fótbolti

Sjáðu Ísabellu skora þrennu á tíu mínútum á móti Frökkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísabella Sara Tryggvadóttir í leik með KR á móti Stjörnunni í Bestu deild kvenna í sumar.
Ísabella Sara Tryggvadóttir í leik með KR á móti Stjörnunni í Bestu deild kvenna í sumar. Vísir/Hulda Margrét

KR-ingurinn Ísabella Sara Tryggvadóttir skoraði þrennu fyrir íslenska sautján ára landsliðið í fótbolta þegar liðið mætti Frakklandi í undankeppni EM.

Ísabella skoraði þessi þrjú mörk sin á aðeins tíu mínútna kafla i fyrri hálfleik eða á 27. mínútu, 32. mínútu og 37. mínútu.

Það er ekki oft sem knattspyrnumenn ná að skora þrennu á móti Frökkum í fótboltanum hvað þá á svo stuttum tíma í einum og sama hálfleiknum.

Fyrsta markið kom eftir stungusendingu frá Emelíu Óskarsdóttur, annað markið eftir fyrirgjöf frá Sigdísi Evu Bárðardóttur og það þriðja eftir aðra skemmtilega sendingu frá Emelíu.

Ísabella kom Íslandi í 3-1 með mörkum sínum en íslensku stelpurnar náðu ekki að halda út og töpuðu leiknum 6-4. Harpa Helgadóttir úr Augnabliki skoraði fjórða markið.

Ísabella Sara hélt upp á sextán ára afmælið sitt í síðasta mánuði en hún skorað tvö mörk fyrir KR í Bestu deild kvenna í sumar.

Ísabella hefur alls skorað 7 mörk fyrir yngri landslið Íslands þar af fjögur mörk í níu leikjum með sautján ára landsliðinu.

Það má sjá öll mörk íslenska liðsins í leiknum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×