Körfubolti

Naumt Meistaradeildartap Elvars og félaga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu.
Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Hulda Margrét

Elvar Már Friðriksson og félagar hans í litháíska liðinu Rytas Vilnius máttu þola naumt fimm stiga tap er liðið heimsótti Bnei Herzliya til Ísrael í Meistaradeild Evrópu í körfubolta í kvöld, 90-85.

Elvar og félagar byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu fljótt tíu stiga forskoti. Þeir bættu heldur betur í áður en fyrsta leikhluta lauk og skoruðu 31 stig gegn aðeins 14 stigum heimamanna.

Liðsmenn Bnei Herzliya vöknuðu þó til lífsins í öðrum leikhluta og minnkuðu muninn niður í fjögur stig áður en flautað var til hálfleiks, en staðan var 40-44 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Elvar og félagar héldu forskoti sínu lengi vel í þriðja leikhluta, en heimamenn sigldu fram úr áður en honum lauk og liðið náði fjögurra stiga forskoti fyrir lokaleikhlutann.

Heimamenn létu það forskot aldrei af hendi og unnu að lokum nauman fimm stiga sigur, 90-85. Elvar skoraði þrjú stig fyrir gestina í kvöld, ásamt því að taka eitt frákast og gefa sex stoðsendingar.

Elvar og félagar hafa því tapað báðum leikjum sínum í H-riðli Meistaradeildarinnar og sitja á botni riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×