Landsréttur staðfesti í fyrradag úrskurð héraðsdóms um fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur en þeir voru handteknir fyrir fjórum vikum. Mennirnir eru grunaðir um vopnalagabrot, fyrir að hafa framleitt skotvopn með þrívíddarprentara, og fyrir að hafa rætt sín á milli í gegn um netskilaboð að fremja hryðjuverk og tilræði við þekkta Íslendinga.
Meðal þeirra sem mennirnir eru sagðir hafa rætt um að myrða eru Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Gunnar Smári Egilsson formaður Sósíalistaflokksins og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Hafi þegar gengist við vopnalagabroti
„Eftir samtöl við minn umbjóðanda sýnist mér að það hafi verið farið fullgeyst af stað í þessu máli með blaðamannafundum og öðru slíku og efnisatriði málsins sýnist mér vera þannig að þarna er um að ræða vopnalagabrot,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars mannanna.
Umbjóðandi hans hafi gengist við vopnalagabroti en mennirnir hafi ekki verið farnir að grípa til raunverulegra undirbúningsaðgerða. Aðeins sé til staðar spjall þeirra á milli.
„Og misheppnað grín hjá þessum tveimur drengjum. En að um sé að ræða skipulag hryðjuverka á opinni spjallrás, það stenst engan vegin,“ segir Sveinn Andri.
Píratar séu sjóræningjar
„Minn umbjóðandi er meinleysisgrey og og gerir ekki flugu mein og eins langt frá því að vera efni í hryðjuverkamann og hugsast getur. Hann hefur engan áhuga á stjórnmálum, heldur að Píratar séu sjóræningjar en ekki stjórnmálaflokkur og svo framvegis.“
Inntur að því hvort hann telji það verða meginefni fyrir dómstólum hvort spjall mannanna hafi verið grín eða ekki segir Sveinn að hann sé almennt óviss að mennirnir verði ákærðir fyrir hryðjuverk.
„Ég er ekki viss að það nái svo langt að þeir verði ákærðir fyrir tilraun til hryðjuverka. Ég efast að málið nái svo langt. Mín tilfinning er sú að þeir endi á að verða ákærðir fyrir vopnalagabrot og þeir muni játa þau.“