Körfubolti

LA Lakers kastaði frá sér sigrinum á lokamínútunni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. vísir/Getty

Vandræði Los Angeles Lakers héldu áfram í NBA deildinni í kvöld þegar liðið fékk Portland Trail Blazers í heimsókn.

Lakers hafði tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni þegar kom að leik kvöldsins á meðan Damian Lillard og félagar í Portland Trail Blazers höfðu unnið báða.

Liðin skiptust á að hafa forystuna í kvöld en þegar rúm ein mínúta lifði leiks voru heimamenn í kjörstöðu. Á lokamínútunni fór Russell Westbrook ævintýralega illa að ráði sínu sem átti eftir að reynast dýrkeypt.

Damian Lillard skoraði þriggja stiga körfu og náði forystunni fyrir Blazers þegar tólf sekúndur lifðu leiks en LeBron James svaraði og jafnaði metin fyrir heimamenn. Jerami Grant gerði vel í kjölfarið fyrir Blazers og náði aftur tveggja stiga forystu.

LeBron James tók lokaskotið í leiknum sem geigaði og tveggja stiga sigur gestanna staðreynd, 104-106.

Lillard var magnaður í liði Portland og gerði 41 stig en LeBron James var stigahæstur heimamanna með 31 stig.

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×