Lífið

Ermarsundskonur hittust í teboði: „Þetta snýst miklu frekar um hausinn en líkamann“

Ólafur Björn Sverrisson og Snorri Másson skrifa
Elsa Valsdóttir, skurðlæknir og sjósundskona, var gestgjafi boðsins.
Elsa Valsdóttir, skurðlæknir og sjósundskona, var gestgjafi boðsins. stöð 2

Sérstakt teboð var haldið var í Laugardal í Reykjavík í dag, þar sem boðsgestirnir voru allar íslenskar konur sem synt hafa yfir Ermarsundið en þær eru tuttugu og þrjár talsins. Konurnar báru saman bækur sínar og fögnuðu því að hafa unnið þetta mikla afrek.

Þarna var meðal annarra stödd Sigrún Þuríður Geirsdóttir, sem er eina íslenska konan sem hefur synt ein yfir Ermarsundið. Hinar hafa synt boðsund. 

Elsa Valsdóttir gestgjafi segist ekki frá því að Íslendingar eigi einkar marga Ermarsundsfara miðað við höfðatölu, bæði sundmenn og -konur.

Frétt Stöðvar 2:

„Það eru ekkert rosalega margir sem hafa gert þetta og að Ísland eigi fimm boðsundslið og þrjá sólófara, það held ég að sé svolítið einstakt,“ segir Elsa.

Hún lýsir sundinu sem bæði hræðilegu og frábæru á sama tíma.

„Þetta er rosalega erfitt og snýst rosalega mikið um hausinn, miklu meira heldur en um líkamlega formið. Þetta er rosalegt úthald, við vorum um 16 tíma að synda okkar sund. Að halda þetta út er aðal-áskorunin,“ segir Elsa að lokum. 

Það var enginn skortur á hraustum konum í boðinu.stöð 2

Elsa var ein þeirra sex kvenna sem syntu boðsund yfir Ermarsundið í sumar. Saman mynda þær sjósundshópinn Bárurnar. Það var tvísýnt um hríð hvort Bárunum tækist ætlunarverk sitt enda syntu þær í miklum ólgusjó um langt skeið. Allt gekk þetta þó upp að lokum og þær fögnuðu vel þegar Frakklandi var náð.

Elsa ræddi nánar um afrekið í Bítinu á Bylgjunni í sumar:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×