Roberto Jefferson er bandamaður Jairs Bolsonaro forseta landsins og býr hann í Rio de Janeiro. Hann hafði verið í stofufangelsi um tíma eftir að hann hótaði dómsmálaráðherra landsins og þegar hótanirnar héldu áfram úrskurðaði dómari að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi.
Þegar lögreglumenn komu að heimili hans í Ríó til að hneppa hann í varðhald tók hann sig til og kastaði handsprengju í átt að þeim. Tveir særðust í sprengingunni eins og áður sagði og lögreglubíll skemmdist töluvert. Hinir særðu voru fluttir á spítala en útskrifaðir skömmu síðar.
Jeffersson, sem er tæplega sjötugur og fyrrverandi formaður PTB hægriflokksins skaut einnig úr riffli á lögreglubílinn þannig að rúður hans brotnuðu.
Mikil spenna er í brasilísku stjórnmálalífi nú um stundir en á sunnudaginn kemur kjósa landsmenn á milli Bolsonaro sitjandi forseta og Lula da Silva, fyrrverandi forseta landsins. Talið er líklegra að Lula beri sigur úr býtum og bindi þar með endahnút á umdeilda valdatíð Bolsonaro.