Að sögn Gunnars Axels Axelssonar, bæjarstjóra Voga, kom fjölmennt tökulið í bæinn á dögunum, um það bil tvö til fjögur hundruð manns. Þess má geta að íbúar Voga eru aðeins 1400 og því er ljóst að fjöldi viðstaddra jókst mikið.
Gunnar Axel segir að umfang verkefnisins hafi verið ótrúlega mikið en það hafi gengið mjög vel. „Þetta tók ótrúlega fljótt af. Þeir komu hérna í skjóli nætur að setja upp og tökur stóðu yfir í allan gærdag og síðan er upptökuteymið farið af svæðinu,“ segir hann í samtali við Vísi

Hann segir íbúa Voga hafa sýnt tökuliðinu nauðsynlega tillitssemi. Tilkynnt var um tökurnar á vef sveitarfélagsins í gær og þeir beðnir um að sýna sérstaka aðgát og tillitssemi á meðan tökum stóð.
Jodie Foster frægasti gestur Voga
Hann segist ekki vita til þess að önnur stór kvikmyndatökuverkefni hafi farið fram í Vogum á Vatnsleysuströnd. Tökur á True Detective eru stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar en umfang þeirra verður um tíu milljarðar króna.
Þá segir Gunnar Axel að sennilega hafi aldrei komið frægari gestur í Voga en stjarna nýjustu seríu True detective, óskarsverðlaunaleikkonan Jodie Foster.
Varað við elgum og ljósastaurum breytt
Meðal þess sem gera þurfti í undirbúningi fyrir tökurnar var að breyta ásýnd Voga og láta þá líta út fyrir að vera bær í Alaska í Bandaríkjunum. Skipta þurfti út miklum fjölda skilta í bænum og við sveitabæi á Vatnsleysuströnd, þar sem þorri takanna fór fram. Skilti voru sett upp sem vara við dýralífi Alaska, elgum og hreindýrum, og umferðarskiltum var breytt.
