Íslenski boltinn

Bræðurnir ætla að taka slaginn saman í Bestu deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bræðurnir Guðni og Hlynur Eiríkssynir verða áfram aðalþjálfari og aðstoðarþjálfari FH-liðsins.
Bræðurnir Guðni og Hlynur Eiríkssynir verða áfram aðalþjálfari og aðstoðarþjálfari FH-liðsins. Instagram/@fhingar

Kvennalið FH hefur gengið frá þjálfaramálum sínum fyrir komandi tímabil í Bestu deildinni en liðið vann sér sæti í deild þeirra bestu í sumar.

Bræðurnir Guðni og Hlynur Eiríkssynir verða áfram með liðið en þeir hafa framlengt samninga sína sem þjálfarar meistaraflokks kvenna til næstu tveggja ára.

FH-liðið vann Lengjudeildina og tapaði ekki leik á mótinu. FH endaði með 12 sigra og 6 jafntefli í 18 leikjum og einu stigi meira en Tindastóll sem fór líka upp.

FH liðið skoraði flest mörk í deildinni, 46, þremur meira en næsta lið, og fékk líka fæst mörk á sig, 9, eða sex færra en næsta lið.

„FH liðið okkar fór með glans upp í Bestu Deildina með því að fara ósigrað í gegnum Lengjudeildina, spilandi skemmtilegan sóknarbolta. Vegferð okkar FH-inga í kvennaboltanum er rétt að byrja og erum við öll mjög spennt að sjá liðið okkar takast á við Bestu Deildina,“ segir í frétt á miðlum FH.

Guðni tók við FH-liðinu haustið 2018 og undir hans stjórn endaði liðið í öðru sæti B-deildarinnar sumarið 2019 og komst þar með aftur upp í Pepsí Max deildina þar sem dvölin var reyndar stutt.  Hlynur var ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá FH í ársbyrjun 2021. Þeir voru því að klára sitt annað tímabil saman og liðið bætti sig talsvert á milli tímabila eftir að hafa endað í þriðja sæti í Lengjudeildinni sumarið 2021.

FH var síðast í efstu deild sumarið 2020 en liðið var líka meðal þeirra bestu á árunum 2016 til 2018 og á árunum 2012 til 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×