Háaleitisbrautin sker heilt skólahverfi í tvennt. Rétt austan megin götuna er Hvassaleitisskóli og leikskólinn Austurborg er steinsnar frá, vestan megin. Mikil umferð barna er því um götuna. Eva Kristín Dal, móðir barna í báðum skólum, hefur þungar áhyggjur af; einkum á gatnamótunum við Austurver.
„Það eru engin ljós þar sem gangandi vegfarendum er algjörlega veittur forgangur. Það er alltaf hætta á því að beygjuumferðin komi og einhvern veginn með þessi birtuskilyrði sem eru hérna, þetta er bara alltof hár hraði og margir sem keyra alltof hratt. Það er hálfgerð blindhæð hérna þegar þú kemur frá Bústaðaveginum,“ segir Eva.
Ögn neðar í götunni við Efstaleiti er einnig mikil umferð gangandi vegfarenda. Þar virðist gert ráð fyrir hálfgerðu gangbrautarígildi á milli tveggja strætóskýla; hjóla- og göngustígar liggja þar að götunni báðum megin og göngustígur er einnig á staðnum yfir umferðareyjuna.
En ökumenn virðast ítrekað virða þetta að vettugi og hætta getur skapast, eins og sést á myndefninu sem fylgir fréttinni hér fyrir ofan. Til dæmis mátti litlu muna að illa færi á dögunum þegar barn hjólaði yfir götuna á þessum sama stað. Atvikið er einnig sýnt í fréttinni.

„Svo hafa ýmsir bent á að kannski væru undirgöng málið. En ég vil bara taka öll þessi gatnamót á Háaleitisbrautinni til gagngerrar endurskoðunar,“ segir Eva.
Ertu hrædd um þín börn hérna?
„Mjög hrædd. Minn sjö ára fær ekki að fara einn yfir og ég veit ekki alveg hvenær ég mun treysta ökumönnum til að taka tillit til hans.“