Enski boltinn

Pep Guardiola um hinn sautján ára Rico Lewis: Við gefum engar gjafir hér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rico Lewis fagnar marki sínu fyrir Manchester City á móti Sevilla í Meistaradeildinni í gær.
Rico Lewis fagnar marki sínu fyrir Manchester City á móti Sevilla í Meistaradeildinni í gær. Getty/Marc Atkins

Rico Lewis varð í gærkvöldi annar yngsti Englendingurinn til að skora í Meistaradeildinni þegar hann skoraði í sigurleik Manchester City á móti Sevilla.

Lewis var bara sautján ára og 346 daga í gær en hann hefur verið hjá Manchester City síðan hann var aðeins átta ára gamall.

Lewis fékk sitt fyrsta tækifæri í byrjunarliði Englandsmeistara og sló met Karim Benzema sem yngsti leikmaður til að skora í fyrsta byrjunarleik sínum í Meistaradeildinni.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hrósaði stráknum eftir leikinn.

„Við gefum engar gjafir hér. Hann þurfti að vinna sér inn þetta tækifæri,“ sagði Pep Guardiola.

„Fólkið elskar leikmenn úr akademíunni en við sjáum hann á hverjum degi. Við vitum að hann hefur gæði og ég er mjög ánægður fyrir hans hönd,“ sagði Pep.

Guardiola tók Lewis með æfingaferðina til Bandaríkjanna í sumar eftir að unglingaþjálfarar félagsins ráðlögðu honum það. Hann sagði að leikmannahópurinn hafi átta sig á því eftir aðeins tvær mínútur á fyrstu æfingunni að þarna var ungur leikmaður sem væri hægt að reiða sig á.

„Hann spilaði í nokkrar mínútur á móti Bayern München á undirbúningstímabilinu og tók einnig þátt í æfingunum. Okkur fannst hann hafa eitthvað sérstakt,“ sagði Pep.

Guardiola sagði líka að strákurinn verði að sýna þolinmæði því samkeppnin er mikil í hægri bakvarðarstöðunni hjá City en þar mun hann keppa við landsliðsmennina Joao Cancelo, Manuel Akanji og John Stones.

„Stundum heldur maður að við þurfum að kaupa bakverði og það kostar oft sitt. Við getum aftur á móti gefið strákum úr akademíunni tækifæri og það er draumurinn. Þetta er gott fyrir fjárhag félagsins og ég er mjög ánægður með þessa ungu stráka hjá okkur,“ sagði Pep.

„Að spila og skora er draumur að rætast fyrir hann. Þetta er bara fyrsta skrefið, fyrsti þrepið í stiganum. Þegar þú kemst inn í aðalliðið þá viltu meira og þetta ætti að auka matarlystina hans,“ sagði Guardiola léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×