Í gær var greint frá því að Rúnar hefði samið við þýska úrvalsdeildarliðið Leipzig sem Viggó Kristjánsson leikur með. Rúnar tekur strax til starfa og stýrir Leipzig í fyrsta sinn gegn Wetzlar annað kvöld.
Haukar hafa fundið eftirmann Rúnars en það er silfurdrengurinn Ásgeir Örn. Þetta er hans fyrsta þjálfarastarf en síðan hann lagði skóna á hilluna 2020 hefur hann verið sérfræðingur Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport. Tjörvi Þorgeirsson verður aðstoðarmaður Ásgeirs Arnar.
Ásgeir Örn er einn dáðasti sonur Hauka. Hann er uppalinn hjá félaginu og varð fjórum sinnum Íslandsmeistari með því áður en hann hélt út í atvinnumennsku 2005. Ásgeir Örn sneri svo heim 2018 og lauk ferlinum á Ásvöllum.
Ásgeir Örn lék 252 landsleiki á árunum 2003-18 og var í íslenska liðinu sem vann silfur á Ólympíuleikunum 2008 og brons á EM 2010. Aðeins Guðjón Valur Sigurðsson hefur spilað á fleiri stórmótum en Ásgeir Örn.
Illa hefur gengið hjá Haukum í upphafi tímabils. Liðið er í 10. sæti Olís-deildarinnar og tapaði með samtals tólf marka mun fyrir Anorthosis frá Kýpur í 2. umferð Evrópubikarsins um helgina.
Ásgeir Örn stýrir Haukum í fyrsta sinn þegar þeir fá Íslands-, bikar- og deildarmeistara Vals í heimsókn á mánudagskvöldið.