Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan-Haukar 36-31| Stjarnan ekki í vandræðum með Hauka

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Vísir/Vilhelm

Stjörnukonur tóku á móti Haukum í 6. umferð Olís-deildar kvenna í handbolta í kvöld. Stjarnan tók forystu strax á fyrstu mínútunum og hélt henni út allan leikinn. Stjarnan sigraði að lokum með fimm mörkum 36-31.

Fyrri hálfleikurinn var heldur kaflaskipur að því leitinu til að á köflum var mikið skorað og hinsvegar mikið um tapaða bolta og illa útfærðar sóknir hjá báðum liðum. Stjarnan byrjaði leikinn betur og voru þær með yfir höndina allan fyrri hálfleikinn. Þegar um stundarfjórðungur var liðinn var staðan 7-3 fyrir Stjörnunni.

Haukar virtust vera að koma sér inn í leikinn undir lok fyrri hálfleiks og þegar rúmlega ein mínúta var til loka fyrri hálfleiks var staðan 12-11. Stjarnan gaf þá í og munaði fjórum mörkum á liðunum 16-12 þegar liðin gengu til klefa í hálfleik.

Sóknarleikur Stjörnunnar var góður í kvöldVísir: Diego

Stjörnukonur mættu gríðarlega öflugar til leiks í seinni hálfleik og komu sér í tíu marka forystu strax á fyrstu tíu mínútunum. Þær spiluðu öflugan varnarleik sem skilaði sér í sjö hraðaupphlaupum á einu bretti. 

Þegar stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfleik leiddi Stjarnan með tólf mörkum 28-16. Í stöðunni 30-20 tók Ragnar Hermannsson þjálfari Hauka tvö leikhlé með stuttu millibili og reyndi að kveikja baráttuviljan hjá sínum konum. Það gekk ágætlega og náðu Haukar að minnka muninn í fimm mörk þegar flautað var til leiksloka, 36-31. 

Afhverju vann Stjarnan?

Þær mættu miklu öflugri til leiks og spiluðu frábæran varnarleik sem skilaði sér í hraðaupphlaupum sem kom þeim í þessa góðu forystu. Þrátt fyrir að það hafi komið klaufalegir kaflar náðu þær að bæta það upp og sáu Haukar ekki til sólar í byrjun seinni hálfleiks þar sem þær keyrðu Haukana í kaf. 

Hverjar stóðu upp úr?

Lena Margrét Valdismarsdóttir var atkvæðamest hjá Stjörnunni með sjö mörk. Helena Rut Örvarsdóttir og Stefanía Theodórsdóttir voru með sex mörk. Darija Zecevic var öflug í markinu og varnarleikurinn var mjög góður heilt yfir. 

Darija var góð í markinu í kvöldVísir: Diego

Hjá Haukum voru Berglind Benediktsdóttir og Natasja Hammer með sex mörk hvor. 

Hvað gekk illa?

Leikur Hauka á stórum köflum í leiknum gekk illa hvort sem það var sóknarleikur eða varnarleikur. Þær fá á sig sjö hraðaupphlaup nánast í röð sem er rosalega dýrt. Sóknarlega voru þær að taka skot sem ýmist enduðu framhjá eða í höndunum á Dariju og ansi oft töpuðu þær boltanum klaufalega. 

Hvað gerist næst?

Laugardaginn 19. nóvember kl 16:00 sækir Stjarnan Selfoss heim. Haukar mæta HK einnig laugardaginn næstkomandi kl 20:00. 

Ragnar Hermannsson: „Mér fannst við vera léleg í handbolta“

Ragnar þjálfari Hauka reynir að stappa stálinu í mannskapinnVísir: Diego

Ragnar Hermannsson, þjálfari Hauka í handbolta var allt annað en sáttur með frammistöðu sinna kvenna er þær töpuðu með fimm mörkum 36-31 á móti Stjörnunni í dag. 

„Ég er eiginlega rosalega óánægður með það að þeir þættir sem að við höfum verið að gera vel í síðustu fjórum leikjum, þeir voru ekki til staðar í dag. Það voru stuttir kaflar sem að voru í lagi varnarlega annars er fólk ekki að framkvæma það sem að við erum að biðja um. Það sem verra er að við erum búin að sýna að við getum framkvæmt þessa hluti en svo koma svona leikir inn á milli þar sem að við erum gjörsamlega út á túni,“ sagði Ragnar svekktur í leikslok. 

„Við töpum þessum leik á síðustu tveimur í fyrri og fyrstu tíu í seinni. Þá erum við í ágætis stöðu að fara einu undir í hálfleik, það hefði verið sanngjarnt, við förum inn fjórum undir. Við byrjum seinni hálfleikinn á marki og fáum svo á okkur sjö, átta mörk þar sem að fólk er að taka mjög slæmar ákvarðanir. Það sem við vorum búin að ræða um að væri styrkur hjá Stjörnunni, fyrstu sendingar, hraðaupphlaup upp völlinn voru alls ráðandi á þessum tíu mínútum.“

Ragnar tók tvö leikhlé með stuttu millibili þegar liðið var tíu mörkum undir og hefði eflaust getað tekið leikhlé miklu fyrr. Ragnar segir stelpurnar verði að sjá að það sé orsök og afleiðing að svona frammistöðu. 

„Ég hefði hugsanlega getað stoppað leikinn en mér finnst þetta lið ekki vera á þeim stað að maður eigi að vera að skeina þau upp, mistökin, hjá liðinu. Við verðum að sjá að það er orsök og afleiðing í þessu. Ef við höfum ekki einbeitingu og þroska til þess að spila á móti alvöru liðum í sextíu mínútur þá fáum við þessa kafla á okkur í einhverri mynd, alltaf. Þetta var svona á móti Val í fyrstu umferðinni og svo höfum við verið að mestu laus við þetta þangað til núna.“

Ragnar segir að það sé hægt að taka jákvæða punkta út úr þessum leik en að liðið þurfi að bæta sig í handbolta. 

„Ég er með aðrar hugmyndir um þetta heldur en gengur og gerist. Mér finnst þetta ekki snúast um stemmningu, mér fannst liðið leggja sig fram í dag. Mér fannst við vera léleg í handbolta og vera spila illa og ekki gera það sem var beðið um. Á milli koma síðan mjög góðir kaflar og mjög margt jákvætt. Það var mjög gaman að sjá örvhentan leikmann loksins fyrir utan og gaman að sjá langskot í fyrsta skipti í vetur sem að voru að fara inn. Ég held að ef við bætum okkur ekki í því sem að, að handaboltanum snýr, þá get ég haldið ræðu, öskrað og gólað fram eftir öllum vetri en við bætum okkur lítið með því.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira