Enski boltinn

Ískalt handaband þegar Fernandes og Ronaldo hittust

Sindri Sverrisson skrifar
Bruno Fernandes og Cristiano Ronaldo eru liðsfélagar bæði í Portúgal og Manchester United.
Bruno Fernandes og Cristiano Ronaldo eru liðsfélagar bæði í Portúgal og Manchester United. Getty/David S. Bustamante

Viðtalið umtalaða sem Cristiano Ronaldo fór í, þar sem hann setti út á ýmislegt varðandi Manchester United, virðist hafa fallið illa í kramið hjá liðsfélaga hans í United og portúgalska landsliðinu, Bruno Fernandes.

Ronaldo og Fernandes hittust í gær þegar portúgalska landsliðið kom saman til undirbúnings fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í Katar á sunnudaginn.

Í myndbroti úr beinni útsendingu CNN í Portúgal sést þegar þeir Ronaldo og Fernandes hittast í búningsklefa portúgalska liðsins.

Ronaldo, sem er fyrirliði landsliðsins, réttir þar út höndina en Fernandes fer framhjá honum og leggur eitthvað frá sér, áður en hann tekur loks í höndina á Ronaldo sem virðist furðu lostinn. Fernandes segir svo eitthvað áður en hann fer í burtu og snýr sér glottandi við.

Í viðtalinu sem Ronaldo fór í, við Piers Morgan, sagðist Ronaldo til að mynda ekki bera neina virðingu fyrir knattspyrnustjóranum Erik ten Hag, að öll umgjörð hjá United væri úrelt og að félagið hefði svikið hann.

Liðsfélagar hans og forráðamenn hjá United voru í enskum miðlum sagðir sárir og reiðir vegna viðtalsins, en brot úr viðtalinu fóru að birtast á sunnudagskvöld skömmu eftir sigur United gegn Fulham, í leik sem Ronaldo kvaðst ekki geta mætt í vegna veikinda.

Daily Mail segir stuðningsmenn United sannfærða um að Fernandes hafi verið að hundsa Ronaldo þegar þeir hittust í portúgalska búningsklefanum og vitnar í nokkra þeirra.

„Maður sér það á andliti Ronaldo. Bruno er sannur liðsmaður og leiðtogi og hann ætlar ekki að leyfa Ronaldo að skíta yfir félagið, stjórann og liðsfélagana án þess að segja hvað honum finnst,“ segir einn.

„Eitt annað vandamál varðandi viðtalið við Ronaldo er aðstaðan sem hann setur [Diogo] Dalot og Bruno í. Þetta er svo ónauðsynleg og vandræðaleg staða,“ segir annar.

Portúgal leikur í H-riðli á HM og mætir þar Gana í fyrsta leik eftir níu daga, 24. nóvember. Í riðlinum eru einnig Úrúgvæ og Suður-Kórea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×