Fótbolti

Herflugvélar fylgdu Pólverjum til Katar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Robert Lewandowski gengur um borð í flugvél pólska liðsins sem flaug liðinu til Katar.
Robert Lewandowski gengur um borð í flugvél pólska liðsins sem flaug liðinu til Katar. Vísir/Getty

Nú styttist óðum í að heimsmeistaramótið í Katar hefjist og liðin eru hvert á fætur öðru farin að tínast til landsins í miðaustri. Pólverjar yfirgáfu heimaland sitt með stæl í dag.

Pólverjar verða í riðli með Mexíkó, Sádi Arabíu og Argentínu á heimsmeistaramótinu en þeir léku vináttuleik gegn Chile í gær þar sem þeir fóru með sigur af hólmi eftir mark Krzysztof Piatek undir lok leiksins.

Pólska liðið hélt síðan áleiðis til Katar í dag og það var engu til sparað á leið þeirra úr landi. Flugvél pólska liðsins fékk fylgd frá F-16 flugvélum pólska hersins að landamærum Póllands í suðri en myndband af fylgdinni var birt á Twitter reikningi pólska knattspyrnusambandsins.

Pólverjar eru taldir eiga ágæta möguleika á því að fara upp úr riðlinum og tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins. Argentína er talið sigurstranglegast í þeirra riðli með Lionel Messi í broddi fylkingar en flestir búast við hörðum slag Póllands og Mexíkó um annað sætið sem tryggir áframhaldandi þátttöku. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×