Arnór skoraði fimm mörk þegar Valur laut í lægra haldi fyrir Flensburg, 32-37, í B-riðli í fyrradag. Þetta var fyrsta tap Valsmanna í Evrópudeildinni í vetur.
Arnór hefur alls skorað tuttugu mörk í fyrstu þremur leikjum Vals í Evrópudeildinni. Aðeins sex leikmenn í keppninni hafa skorað meira. Pol Valera Rovira, leikmaður spænska liðsins Granollers, er markahæstur í keppninni með 25 mörk. Þar á eftir koma Thomas Sommer Arnoldsen (Skanderborg-Aarhus) og Benedek Éles (BAL Veszprém) með 23 mörk hvor. Þrír leikmenn hafa svo skorað 21 mark.
Óðinn Þór Ríkharðsson, leikmaður svissnesku meistaranna í Kadetten Schaffhausen) er í 11.-16. sæti yfir markahæstu leikmenn Evrópudeildarinnar með nítján mörk en aðeins í tveimur leikjum.
Yngri bróðir Arnórs, Benedikt Gunnar, er næstmarkahæstur Valsmanna í Evrópudeildinni með átján mörk. Níu þeirra komu gegn Flensburg. Magnús Óli Magnússon hefur svo skorað sextán mörk.
Næsti leikur Vals í Evrópudeildinni er gegn PAUC í Frakklandi á þriðjudaginn. Bæði lið eru með fjögur stig í B-riðlinum.