Kim sakar ráðamenn í Suður-Kóreu um að skapa hættulegt ástand á Kóreuskaga en fyrr í vikunni opinberaði utanríkisráðuneyti Suður-Kóreu að verið væri að skoða að beita Norður-Kóreu frekari refsiaðgerðum.
„Ég velti fyrir mér af hverju íbúar Suður-Kóreu sitja hjá þegar ríkisstjórn Yoon Suk Yeol [forseti Suður-Kóreu] og annarra fávita heldur áfram að skapa þetta hættulega ástand,“ sagði Kim í yfirlýsingu sem birt var í KCNA, ríkismiðli Norður-Kóreu.
Hún sakaði nágranna sína í suðri um að vera lítið annan að hliðhollur hundur Bandaríkjanna, samkvæmt frétt Yonahap, fréttaveitu frá Suður-Kóreu.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kim Yo Jong er harðorð í garð ráðamanna í Suður-Kóreu. Fyrr á þessu ári kallaði hún forseta Suður-Kóreu til að mynda „einfaldan“ og sagði honum að halda kjafti.
Í frétt Sky News er haft eftir sameiningarráðherra Suður-Kóreu að orðræða Kim sé ekki við hæfi. Ríkisstjórnin fordæmir barnalegar tilraunir hennar til að hvetja til illdeilna og grafa undan stjórnarkerfi Suður-Kóreu.
Mikil spenna ríkir á Kóreuskaganum þar sem ríkisstjórn Norður-Kóreu hefur gert ítrekaðar tilraunir með eldflaugar á undanförnum vikum. Tilraunirnar hafa bæði snúið að skammdrægum og langdrægum eldflaugum.
Þá eru vangaveltur uppi um að til standi að gera tilraun með kjarnorkusprengju á næstunni.
Sjá einnig: Segir kjarnorkuárás jafngilda endalokum stjórnartíðar Kim
Síðustu viðræður milli embættismanna frá Norður-Kóreu og Bandaríkjunum um mögulega afvopnun einræðisríkisins áttu sér stað árið 2019 og er ekkert útlit fyrir frekari viðræður. Frá 2019 hafa Norður-Kóreumenn orðið sífellt vígreifari í orðum sínum og hótunum í garð Bandaríkjanna og annarra nágranna sinna.
Á þessum tíma hafa ítrekaðar tilraunir verið gerðar í Norður-Kóreu með langdrægar eldflaugar en þær eru í trássi við samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ekki hefur verið gerð tilraun með kjarnorkuvopn frá árinu 2017.