Körfubolti

Þórir og félagar unnu sinn fyrsta leik á tímabilinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þórir Guðmundur í baráttunni við Dominykas Milka í Subway-deild karla.
Þórir Guðmundur í baráttunni við Dominykas Milka í Subway-deild karla. Vísir/Bára Dröfn

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson og félagar hans í Oviedo unnu sinn fyrsta leik á tímabilinu er liðið tóka á móti Leyma Coruna í áttundu umferð spænsku B-deildarinnar í körfubolta í dag, 93-83.

Mikið jafnræði var með liðunum frá upphafi til enda og gestirnir í Leyma Coruna leiddu með tveimur stigum að loknum fyrsta leikhluta, 25-27. Gestirnir juku forskot sitt svo lítillega fyrir hálfleik, en staðan var 40-46 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Þórir og félagar mættu hins vegar betur til leiks eftir hálfleikshléið og jöfnuðu metin fyrir lokaleikhlutann. Þar reyndust heimamenn svo sterkari og unnu að lokum góðan tíu stiga sigur, 93-83.

Eins og áður segir var þetta fyrsti sigur Oviedo á tímabilinu og liðið situr nú í 17. og næst neðsta sæti deildarinnar með einn sigur í átta leikjum. Leyma Coruna situr hins vegar í tíunda sæti með fjóra sigra í átta leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×