Sérfræðingar segja yngri kynslóðir reyndar betri í tilfinningagreind en margt fólk sem eldra er. Sem skýrist einfaldlega af því að ungt fólk er vanari því og finnst eðlilegt að ræða tilfinningar sínar og líðan.
Margir yfirmenn eru hins vegar af allt annarri kynslóð og í nýlegri grein á Fastcompany eru nefnd sjö atriði sem við getum mátað við okkar yfirmenn, til að átta okkur á því hversu tilfinningagreindur okkar yfirmaður telst vera.
Því jú, tilfinningagreind er að sjálfsögðu eitthvað sem telst sterkur eiginleiki hjá leiðtogum.
Þessi sjö atriði eru:
1. Einlægnin er augljós
Einlægni og heiðarleiki einkennir fast þeirra og framkomu og þessi yfirmaður hefur mjög mikla trú á því sem við erum að gera í vinnunni.
2. Er tilbúinn til að takast á við erfið mál
Hér erum við að tala um yfirmanninn sem tekst á við erfiðu málin, þótt það þýði að hann/hún þarf að fara úr sínum eigin þægindaramma.
3. Heldur ró sinni
Þetta er yfirmaðurinn sem nær að halda ró sinni sama hvað gengur á eða kemur upp. Þessi eiginleiki er sá sem oftast hjálpar starfshópum að halda betur einbeitingu og ró, þar til lausn finnst eða krísa er yfirstaðin.
4. Hreinskiptin samskipti
Þessi yfirmaður kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Hreinskiptin í tali og skýr og starfsfólk þarf ekkert að efast um hver markmiðin eru.
5. Samskipti á mannlegum nótum
Þetta er yfirmaðurinn sem fólk þorir að tjá sig við, einfaldlega vegna þess að maður uppsker því sem maður sáir. Samskipti eru ekki aðeins einlæg og skýr, heldur einnig á mannlegu nótunum og trúverðug.
6. Þrautseigja
Þá er það þrautseigjan og staðfestan sem einkennir viðkomandi. Sem gefst ekki upp þótt á móti blási eldur brettir upp ermarnar og hvetur sitt fólk til dáða.
7. Tekur ekki þátt í neikvæðu tali né nöldri
Það er misjafnt dagsformið á okkur öllum og jákvæðasta fólk getur kveinkað sér eða kvartað á einstaka dögum. Þessi yfirmaður lætur neikvæðni hins vegar eins og um eyru þjóta og blæs frekar byr í sitt fólk.