Körfubolti

Davis gefur Lakers von

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Anthony Davis var óstöðvandi í Washington.
Anthony Davis var óstöðvandi í Washington. Greg Fiume/Getty Images

Los Angeles Lakers er farið að láta sig dreyma um að komast í úrslitakeppnina í NBA deildinni í körfubolta. Ástæðan þar á bakvið er einföld, Anthony Davis.

Los Angeles Lakers hefur unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum og virðist loks hafa fundið taktinn. Helsta ástæðan eru tröllaframmistöður Davis sem skoraði 44 stig og tók 10 fráköst í sigrinum á Milwaukee Bucks og gerði svo gott betur gegn Washington Wizards á aðfaranótt mánudags.

Davis skoraði 55 stig og tók 17 fráköst í 11 stiga sigri Lakers, lokatölur 119-130. Sigurinn virtist ætla að verða mun stærri en Wizards minnkuðu muninn allverulega í fjórða leikhluta.

Það hefur vissulega hjálpað Lakers að fá LeBron James aftur inn í liðið en það eru frammistöður Davis sem eru að stela fyrirsögnunum. Leikurinn gegn Washington var fimmti leikurinn á ferlinum þar sem Davis skorar 50 stig eða meira en hann hafði ekki gert það síðan árið 2019.

Þá varð hann fyrsti leikmaður Lakers til að skora 40 stig eða meira tvo leiki í röð síðan Kobe Bryant heitinn gerði það í mars árið 2013.

Lakers á enn langt í land með að verða eitt af betri liðum deildarinnar en sem stendur virðist liðið til alls líklegt. Ef það hefði ekki á einhvern ótrúlegan hátt hent frá sér unnum leik gegn Indiana Pacers væri liðið með 11 sigra og 11 töp að loknum 22 leikjum en sem stendur er Lakers 10-12 og situr í 12. sæti Vesturdeildar.

Ef Davis heldur hins vegar áfram uppteknum hætti er allt mögulegt og hver veit nema Lakers blómstri að nýju árið 2023.

Önnur úrslit 5. desember

Detroit Pistons 112-122 Memphis Grizzlies

Sacramento Kings 110-101 Chicago Bulls

New York Knicks 92-81 Cleveland Cavaliers

Brooklyn Nets 92-103 Boston Celtics

Portland Trail Blazers 116-100 Indiana Pacers




Fleiri fréttir

Sjá meira


×