Körfubolti

Skvettubræður slökktu í Boston | Jokić dró vagninn að venju

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skvettubræður rifjuðu upp gamla tíma í nótt.
Skvettubræður rifjuðu upp gamla tíma í nótt. Thearon W. Henderson/Getty Images

Alls fóru átta leikir fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Þar má helst nefna stórleik meistara Golden State Warriors og besta liðs deildarinnar, Boston Celtics. Nikola Jokić var frábær í leik Denver Nuggets og Utah Jazz á sama tíma og Chicago Bulls skoraði 144 stig gegn Dallas Mavericks

Stórleikur næturinnar var leikur Stríðsmannanna frá Golden State og Boston Celtics en síðarnefnda liðið er án efa besta lið NBA um þessar mundir. Það var þó ekki að sjá á leik næturinnar en Golden State hafði yfirhöndina frá upphafi til enda, lokatölur 123-107.

Skvettubræðurnir Klay Thompson og Stephen Curry báru af í liði Warriors. Klay var stigahæstur hjá með 34 stig og Curry setti 32 stig. Þar á eftir kom Jordan Poole með 20 stig. Hjá Boston skoraði Jaylen Brown 31 stig en Jayson Tatum var rólegur á eigin mælikvarða og skoraði „aðeins“ 18 stig.

Nikola Jokić setti á sig galdrahattinn og dró Nuggets til sigurs gegn Jazz, lokatölur 115-110. Hann skoraði 31 stig, gaf 14 stoðsendingar og tók 12 fráköst. Jamal Murray skoraði 30 stig í liði Nuggets á meðan Nickeil Alexander-Walker var stigahæstur hjá Jazz með 27 stig.

Chicago Bulls skoraði ótrúlegt en satt 144 stig í öruggum sigri á Dallas Mavericks, lokatölur 144-115. DeMar DeRozan var stigahæstur hjá Bulls með 28 stig en alls skoruðu sex leikmenn 15 stig eða meira.

Nikola Vucevic var með 20 stig, Ayo Dosunmu var með 17 stig og þeir Patrick Williams og Derrick Jones Jr. voru með 16 stig hvor. Luka Dončić lék ekki með Dallas en í fjarveru hans var Spencer Dinwiddie stigahæstur með 27 stig.

Þá vann Brooklyn Nets þriggja stiga sigur á Indiana Pacers þó það hafi vantaði Kevin Durant, Kyrie Irving og Ben Simmons. Cam Thomas stigahæstur hjá Nets með 33 stig í leik sem lauk 136-133.

Önnur úrslit

Miami Heat 111-115 San Antonio Spurs

Washington Wizards 107-114 Los Angeles Clippers

Cleveland Cavaliers 110-102 Oklahoma City Thunder

Portland Trail Blazers 124-118 Minnesota Timberwolves




Fleiri fréttir

Sjá meira


×