Fótbolti

Vilja Guardiola eða Ancelotti í stjórastólinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Pep Guardiola og Carlo Ancelotti eru efstir á óskalista brasilíska knattspyrnusambandsins.
Pep Guardiola og Carlo Ancelotti eru efstir á óskalista brasilíska knattspyrnusambandsins. Samsett/Getty

Brasilíska knattspyrnusambandið er með háleit markmið í þjálfaraleit sinni eftir afsögn Tite í kjölfar vonbrigða liðsins á HM.

Brasilía þótti, að venju, á meðal þeirra líklegri til árangurs á mótinu í Katar en féll úr leik í 8-liða úrslitum fyrir Króatíu eftir vítakeppni. Þjálfarinn Tite sagði starfi sínu lausu í vikunni eftir að liðið féll úr leik.

Brasilíska knattspyrnusambandið leitar nú arftaka Tite og er Josep Guardiola, stjóri Manchester City, sagður efstur á blaði. Hann er nýbúinn að skrifa undir nýjan samning við Englandsmeistarana og óljóst hversu mikinn áhuga hann hefur á að breyta til.

Carlo Ancelotti er einnig orðaður við stöðuna og segir í spænskum fjölmiðlum að hann útiloki ekki að breyta til eftir yfirstandandi leiktíð. Ancelotti er þjálfari Real Madrid og stýrði liðinu til sigurs í bæði spænsku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð. Ef marka má fregnir í fjölmiðlum er hann opinn fyrir tækifærinu að stýra Brasilíu en myndi þá ekki taka við fyrr en næsta sumar, þegar yfirstandandi leiktíð lýkur.

Ef annar þeirra Guardiola eða Ancelotti myndi taka við landsliðinu yrði viðkomandi aðeins fjórði útlendingurinn til að stýra brasilíska landsliðinu, og sá fyrsti frá 1965. Úrúgvæinn Ramón Platero var landsliðsþjálfari 1924, Portúgalinn Joreca árið 1944 og Argentínumaðurinn Filpo Núnez árið 1965. Enginn þeirra entist lengi í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×