Körfubolti

Höttur í undanúrslit eftir sigur á KR

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Höttur er komið í undanúrslit VÍS-bikarsins.
Höttur er komið í undanúrslit VÍS-bikarsins. Vísir/Bára Dröfn

Höttur varð síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslit VÍS-bikars karla í körfubolta þegar liðið vann lánlaust lið KR í Vesturbænum. Munurinn gat ekki verið minni en gestirnir frá Egilsstöðum unnu leikinn 94-93. 

Gengi KR á leiktíðinni hefur verið vægast sagt skelfilegt og stefnir í að liðið falli úr Subway deild karla taki það sig ekki saman í andlitinu. Að komast í undanúrslit bikarsins hefði getað gefið liðinu byr undir báða vængi en sú gulrót er ekki lengur til staðar.

Leikurinn var æsispennandi frá upphafi til enda en aðeins munaði einu stigi á liðunum efitr fyrsta leikhluta. KR-ingar fóru inn í hálfleikinn með fjögurra stiga forystu, staðan þá 50-46.

Síðari hálfleikur var meira af því sama, liðin skiptust á körfum en KR var þó hænuskrefi framar. Munurinn var orðinn fimm stig þegar fjórði og síðasti leikhluti hófst en þá virtist bensínið búið hjá heimamönnum.

Gestirnir gengu á lagið og voru komnir þremur stigum yfir um miðbik fjórða leikhluta. Lokamínúturnar voru æsispennandi er liðin skiptust á forystunni. Timothy Guers kom Hetti yfir með tveimur stigum af vítalínunni þegar 55 sekúndur voru eftir. EC Matthews klúðraði þriggja stiga skoti í næstu sókn, Höttur klúðraði sínu tækifæri til að gulltryggja sigurinn en að kom ekki að sök þar sem EC Matthews klúðraði síðasta skoti leiksins og Höttur vann leikinn 94-93.

EC Matthews var stigahæstur í liði KR með 37 stig. Jordan Semple kom þar á eftir með 25 stig og 11 fráköst. Hjá Hetti var Timothy Guers með 32 stig og Matej Karlovic 15 stig.

Höttur er komið í undanúrslit bikarsins ásamt Stjörnunni, Keflavík og Val. Leikið verður í Laugardalshöll og fara leikirnir báðir fram þann 11. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×