Labbadia var spurður út í meiðsli Manuels Neuer, fyrirliði Bayern München og þýska landsliðsins, sem fótbrotnaði á skíðum og verður ekki meira með á tímabilinu. Hann sagðist ekki hafa áhyggjur af því að tveir þeldökkir leikmenn Stuttgart myndu slasast á skíðum.
„Þegar þú horfir á liðið á sé ég ekki marga sem gætu lent í því. Ég sé [Tanguy] Coulibaly eða Serhou [Guirassy] ekki fyrir mér einhvers staðar á skíðum. Ég gæti haft rangt fyrir mér en ég tengi þá meira við sólina,“ sagði Labbadia.
Ummæli hans þóttu afar taktlaus og hann hefur verið sakaður um rasisma í garð þeirra Coulibalys og Guirassys.
Labbadia tók við Stuttgart fyrr í þessum mánuði. Hann þekkir vel til hjá liðinu eftir að hafa þjálfað það á árunum 2010-13.
Franski miðjumaðurinn Coulibaly kom til Stuttgart frá Paris Saint-Germain. Hann hefur leikið þrjátíu leiki fyrir aðllið Stuttgart og skorað tvö mörk. Guirassy, sem er 26 ára gíneskur framherji, er á láni hjá Stuttgart frá Rennes í Frakklandi.